Innlent

Starfs­maður Héraðssaksóknara með stöðu sak­bornings

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður Héraðssaksóknara, sem unnið mun hafa hjá embættinu í meira en áratug, er sagður með stöðu sakbornings í PPP málinu svokallaða. Sá hafi verið kallaður í yfirheyrslu hjá lögreglunni á Selfossi í sumar.

Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins.

Í samtali við fréttastofu sagði Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, að hann gæti ekki tjáð sig um málið. Það væri á borði Lögreglunnar á Suðurlandi.

Frá Lögreglunni á Suðurlandi fengust engar upplýsingar aðrar en þær að málið væri enn í vinnslu.

Málið má rekja til þess að í vor var fjallað um það í Kveiki á Rúv að tveir fyrrverandi starfsmenn saksóknaraembættisins, þeir Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson, hafi hætt hjá embættinu í lok árs 2011 og stofnað njósnafyrirtækið PPP sf.

Voru þeir taldir hafa stolið gögnum frá embættinu. Kært var fyrir þennan meinta stuld en málið var fellt niður af Ríkissaksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×