Erlent

Falin mynda­vél á þingklósettinu og ó­sæmi­legar myndir af börnum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skoski þingmaðurinn Colin Smyth er í töluverðu klandri eftir að lögreglan greip hann með klúrar myndir af börnum og hann reyndist hafa komið falinni myndavél fyrir á klósetti skoska þingsins.
Skoski þingmaðurinn Colin Smyth er í töluverðu klandri eftir að lögreglan greip hann með klúrar myndir af börnum og hann reyndist hafa komið falinni myndavél fyrir á klósetti skoska þingsins. Getty

Skoski þingmaðurinn Colin Smyth hefur verið ákærður fyrir að koma falinni myndavél fyrir á salerni í skoska þinginu. Fyrr í mánuðinum var Smyth handtekinn fyrir að vera með ósæmilegt myndefni af börnum í fórum sér. 

Bæði BBC og The Guardian greina frá máli Smyth. 

Hinn 52 ára Smyth, sem hefur verið fulltrúi Suður-Skotlands á skoska þinginu frá 2016, var handtekinn í bænum Dumfries 5. ágúst fyrir að vera með ósæmilegt myndefni af börnum í fórum sér. 

Skoski verkamannaflokkurinn leysti hann í kjölfarið frá störfum en hann er skráður sem sjálfstæður þingmaður í dag. Ekki liggur fyrir hvort brottreksturinn er tímabundinn eða varanlegur.

Í gær var Smyth síðar ákærður fyrir ólöglegar upptökur á salerni skoska þingsins. Talsmaður skoska þingsins sagði að í ljós rannsóknarinnar hefði skoska þingið „tekið þá ákvörðun að óvirkja aðgangskort Colins Smyth að þinginu“.

Engar frekari upplýsingar liggja fyrir um meinta glæpi Smyth eða framgang málsins.

Sýnir samstarfsvilja

Smyth gaf sjálfur frá sér tilkynningu í síðustu viku til að bregðast við málinu.

„Þessir atburðir eru áfall og þetta er mjög stressandi tími. Ég sýni augljóslega samstarfsvilja í tengslum við allar spurningar og vona að hægt sé að leysa málið í hasti,“ sagði hann í yfirlýsingunni.

„Ég get ekki tjáð mig frekar að svo stöddu og í millitíðinni vil ég biðja að friðhelgi fjölskyldu minnar og vina verði virt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×