Erlent

Stefna á fjölda­fram­leiðslu á eigin stýriflaugum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá leynilegri eldflaugaverksmiðju í Úkraínu, þar sem Flamingo-stýriflaugar eru framleiddar.
Frá leynilegri eldflaugaverksmiðju í Úkraínu, þar sem Flamingo-stýriflaugar eru framleiddar. AP/Efrem Lukatsky

Úkraínumenn hafa aukið umfang árása sinna á olíuframleiðsluinnviði í Rússlandi og eru þar að auki að hefja framleiðslu á heimagerðum stýriflaugum. Þær á að nota samhliða sjálfsprengidrónum sem Úkraínumenn hafa verið að nota um nokkuð skeið.

Um nokkuð skeið hafa Úkraínumenn notast við langdræga sjálfsprengidróna til árása djúpt í Rússlandi, sem beinst hafa að mestu leyti að hergagnaframleiðslu og olíuframleiðslu. Rússar nota tekjur af sölu olíu og jarðgass til að fjármagna stríðsreksturinn í Úkraínu að stórum hluta.

Drónarnir eru þó hægfara og geta því auðveldlega verið skotnir niður. Þeir eru einnig viðkvæmir fyrir rafrænum truflunum sem geta gert þá stefnulausa eða látið þá hrapa til jarðar.

Framleiðsla þessara dróna og annarra hefur aukist nokkuð í Úkraínu og þá að miklu leyti vegna fjárveitinga frá bakhjörlum ríkisins. Vopnabúr margra bakhjarla Úkraínu eru svo gott sem tóm og hefur því verið brugðið til þess ráðs að hjálpa Úkraínumönnum að auka eigin hergagnaframleiðslu.

Meðal annars hefur verið notast við „dönsku leiðina“ svokölluðu til þessa.

Sjá einnig: Danska leiðin vekur lukku meðal bakhjarla Úkraínu

Úkraínski herinn kaupir nú mikið magn af hergögnum af innlendum framleiðendum og er eitt af markmiðum Úkraínumanna að verða sjálfum sér nægir, þegar kemur að hergagnaframleiðslu. Þannig gæti ríkið einnig aðstoðar ríki Evrópu við að fylla á vopnabúr sín í framtíðinni.

Forsvarsmenn úkraínskra hergagnaframleiðenda segja framleiðsluna geta orðið þrefalt umfangsmeiri.

Vilja fjöldaframleiða stýriflaugar í lok árs

Blaðamenn og ljósmyndarar AP fréttaveitunnar fengu á dögunum að heimsækja leynilega verksmiðju í Úkraínu, eina af mörgum, þar sem verið er að framleiða sjálfsprengidróna og nýjar stýriflaugar.

Þar er sérstaklega verið að framleiða dróna sem kallast FP-1 og geta drifið allt að 1.600 kílómetra. Þar er þó einnig verið að framleiða stýriflaugar sem kallast Flamingo og eiga að geta borið mikið magn sprengiefna, á mun meiri hraða en drónarnir, allt að þrjú þúsund kílómetra.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segist vonast að fjöldaframleiðsla á stýriflaugunum verði hafin fyrir lok þessa árs. Enn sem komið er framleiðir fyrirtækið sem blaðamennirnir heimsóttu eingöngu eina stýriflaug á dag og er vonast til þess að fjöldinn verði kominn í sjö í næsta mánuði.

Með aukinni framleiðslu og virki stýriflaugarnar vel gætu Úkraínumenn aukið umfang árása sinna í Rússlandi, og væntanlega skilvirkni, töluvert.

Úkraínumenn birtu á dögunum myndbönd af tilraunaskotum stýriflauganna.

Langar biðraðir við bensínstöðvar í Rússlandi

Rússneski útlagamiðilinn Novaya Gazeta sagði frá því fyrr í mánuðinum að þann 4. ágúst hefði bensínverð náð methæðum í Pétursborg. Var það etir árásir Úkraínumanna á fjórar olíuvinnslur í Rússlandi. Þá hafði ríkisstjórn Vladimírs Pútín, forseta, einnig bannað útflutning bensíns til að bæta stöðuna á markaðinum.

Heimildarmenn miðilsins sögðu þá að rekja mætti hækkunina á eldsneytisverði til áðurnefndra drónaárása og vinnslustöðvunar vegna þeirra, aukinnar eftirspurnar og minni niðurgreiðslu til olíuvinnsla í Rússlandi.

Síðan þá hafa frekari upplýsingar litið dagsins ljós og í gær hækkaði bensínverð í Pétursborg enn frekar. Þá hafði það hækkað um 55 prósent á þessu ári.

Í þessum mánuði hafa einnig myndast margra kílómetra langar biðraðir við bensínstöðvar víðsvegar um Rússland og á Krímskaga.

Úkraínumenn réðust á enn eina olíuvinnslustöðina í Rússlandi í nótt. Sú er staðsett í Rostovhéraði og Úkraínumenn segja hana sjá um tvö til þrjú prósent af allri vinnslu Rússlands.

Aukinn þungi í árásum Rússa

Rússar skutu í nótt hundrað eldflauga og dróna að Úkraínu í mjög umfangsmikilli árás. Árásin í nótt er sögð sú umfangsmesta um nokkuð skeið en frekari árásir hafa verið gerðar í dag og beindust þær að miklu leyti að borgum í vestanverðri Úkraínu, langt frá víglínunni.

Að minnsta kosti einn hefur látið lífið en margir eru sagðir særðir. Fjölmörg íbúðarhús eru sögð skemmd eftir árásina.

Talsmenn úkraínska hersins sögðu í morgun að Rússar hefðu notað 574 dróna, bæði sjálfsprengidróna og tálbeitur, til árása í nótt og þar að auki hefði verið notast við ýmiskonar eldflaugar, í heildina 41.

Meðal annars eru Rússar sagðir hafa notað ofurhljóðfráar eldflaugar, skotflaugar og stýriflaugar í nótt.

Andrii Sybiha, utanríkisráðherra Úkraínu, segir árás næturinnar ekki hafa þjónað neinum hernaðarlegum tilgangi. Rússar væru eingöngu að fremja hryðjuverk gegn óbreyttum borgurum. Hins vegar má taka fram að hergagnaframleiðendur eins og fjallað er um hér að ofan eru oft staðsettir á leynilegum stöðum í úkraínskum borgum.

Sérfræðingar segja líklegt að óbreyttir borgarar hafi fallið í ónákvæmum árásum Rússa á þessa staði.

Fjarlægur friður

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, slær á svipaða strengi og Sybiha og segir árás næturinnar kalla eftir viðbrögðum. Rússar gefi enn einu sinni til kynna að þeir hafi ekki áhuga á raunverulegum friðarviðræðum.

AP fréttaveitan segir Rússa einungis tvisvar sinnum áður á þessu ári hafa notað svo marga dróna á einni nóttu til árása í Úkraínu. Umfang árása Rússa á Úkraínu hefur aukist nokkuð á undanförnum mánuðum.

Síðustu daga virðist sem aukinn kraftur hafi færst í leit að friði í Úkraínu. Það á allavega við í Bandaríkjunum, eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fundaði með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Alaska síðasta föstudag.

Umræðan er þó mjög á reiki og margt af því sem Bandaríkjamenn hafa sagt að Pútín hafi sagt við Trump, hafa ráðamenn í Rússlandi sagt rangt. Þar að auki hafa Rússar á undanförnum dögum skotið nærri því þúsund drónum og eldflaugum að Úkraínu.

Trump hefur áður sagt að hann hafi orðið reiður Pútín eftir að þeir hafi talað saman. Þá hafi Pútín nokkrum sinnum gefið til kynna að hann sé tilbúinn í frið en strax í kjölfarið gert umfangsmiklar og mannskæðar árásir á úkraínskar borgir og bæi.

Sjá einnig: Gefa lítið fyrir afar­kosti Trumps

Í tengslum við slík ummæli hefur Trump iðulega hótað hertum refsiaðgerðum gegn Rússlandi og viðskiptaríkjum Rússlands, án þess þó að láta verða af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×