Fótbolti

Reyndu að ráða Solskjær áður en þeir réðu svo Heimi Hall­gríms

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær ræddi það þegar hann var nálægt því að taka við írska landsliðinu.
Ole Gunnar Solskjær ræddi það þegar hann var nálægt því að taka við írska landsliðinu. Getty/Stephen McCarthy/

Ole Gunnar Solskjær, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, var í viðræðum um að taka við írska karlalandsliðinu í fótbolta á síðasta ári.

Írska knattspyrnusambandið reyndi því að ráða Solskjær sem eftirmann Stephen Kenny en á endanum fékk Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson starfið.

Solskjær tók síðan við tyrkneska félaginu Besiktas í janúar.

Besiktas mætir írska liðinu St Patrick's Athletic í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld en þjálfari þess er einmitt fyrrnefndur Stephen Kenny.

Solskjær  ræddi það fyrir leikinn þegar hann var nálægt því að taka við írska landsliðinu árið 2024. BBC segir frá.

„Ég átti nokkur góð samtöl við fulltrúa sambandsins um starfið,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það fór svo ekki svo að ég fengi starfið en ég er mjög ánægður þar sem ég er núna. Við skulum orða það þannig,“ sagði Solskjær.

Heimir Hallgrímsson var ráðinn 10. júlí 2024 ellefu dögum eftir að hann hætti með landslið Jamaíka. Írska landsliðið hefur spilað tíu landsleiki undir stjórn Heimis til þessa og unnið fjóra þeirra.

Besiktas datt úr Evrópudeildinni í síðustu viku eftir að hafa tapað 6-2 samanlagt á móti Shakhtar Donetsk. Liðið fær nú annað tækifæri í Sambandsdeildinni.

Þeir spila nú fyrri leikinn við írska liðið í Dublin en þann seinni á heimavelli sínum í Istanbul.

Hinn 52 ára gamli Solskjær átti mjög sigursælan feril sem leikmaður Manchester Untied og vann meðal annars þrennuna með félaginu 1999.

Hann var síðan knattspyrnustjóri United frá 2018 til 2021, tók við af Jose Mourinho á miðju tímabili en var rekinn áður en United réði Erik ten Hag.

Starfið hjá Besiktas var hans fyrsta starf í rúm þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×