Fótbolti

Dramatík í Barcelona: Fé­lagið í mál við eigin leik­mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Andre ter Stegen lék með þýska landsliðinu í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar í sumar.
Marc Andre ter Stegen lék með þýska landsliðinu í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar í sumar. Getty/Marvin Ibo Guengoer

Barcelona er að skoða það að fara með þýska markvörðinn Marc-André ter Stegen, sinn eigin leikmann, fyrir dómstóla.

Málið snýst um bakmeiðsli Ter Stegen. Markvörðurinn neitar að senda inn upplýsingar um bakmeiðsli sín til læknanefndar spænsku deildarinnar.

Spænska blaðið Mundo Deportivo fjallar um málið og hefur upplýsingarnar eftir talsmanni félagsins.

Upplýsingar um sjúklinga eru trúnaðarmál og leikmaðurinn verður því að gefa leyfi fyrir því að þær séu sendar áfram.

Félagið gerir sér grein fyrir því en telur einnig að leikmaður hafi sínar skyldur við félagið sitt.

Ter Stegen segir sjálfur að hann verði frá æfingum og keppni í þrjá mánuði. Hann fór nýverið í sína aðra bakaðgerð á stuttum tíma.

Barcelona telur að hann verði frá í fjórða mánuð sem gæfi félaginu um leið rétt til að nota áttatíu prósent af launum Ter Stegen til að koma öðrum leikmanni fyrir undir launaþaki spænsku deildarinnar.

Barcelona reyndi að ræða við Þjóðverjann í sumar en Ter Stegen gaf sig ekki og neitaði að skrifa undir. Samband hans og félagsins er ekki gott. Hann er með samning við Barcelona til ársins 2028. 

Leikmaðurinn sem Barcelona vill skrá inn hjá La Liga heitir Joan Garcia, er markvörður og kemur frá Espanyol. 

Barcelona tekur að Ter Stegen sé hegðun sinni að skaða félagið og liðsfélaga sína og málið er væntanlega á leið fyrir dómstóla.

Barcelona átti einnig í vandræðum með að skrá leikmenn á síðustu leiktíð en gott dæmi um það er spænski landsliðsmaðurinn Dani Olmo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×