Erlent

Sam­þykkja ný lög um spillingarrannsóknir eftir mót­mæli

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá úkraínska þinginu í dag.
Frá úkraínska þinginu í dag. AP/Vadym Sarakhan

Vólódímir Selenskí, forseti Úkraínu, skrifaði í dag undir lög sem snúa við mjög svo umdeildum lögum gegn sjálfstæði embætta sem rannsaka opinbera spillingu. Með því hafa stofnanirnar tvær, sem kallast NABU og SAPO, öðlast sjálfstæði frá framkvæmdavaldinu á nýjan leik en er það í kjölfar umfangsmikilla mótmæla í Úkraínu gegn fyrri lögunum og vegna mótmæla frá bakhjörlum Úkraínumanna í Evrópu.

Almenningur í Úkraínu, bakhjarlar Úkraínu og fleiri sögðu lögin draga úr lýðræði og gera stofnanirnar berskjaldaðar fyrir pólitískum áhrifum. Barátta gegn langvarandi og kerfisbundinni spillingu í Úkraínu nýtur mikils stuðnings almennings í Úkraínu og er mikilvægt bakhjörlum Úkraínu.

Nýju lögin, sem fella þau fyrri úr gildi, munu taka gildi á morgun, samkvæmt frétt Kiyv Independent.

Bæði NABU og SAPO voru stofnaðar í kjölfar EuroMaidan mótmælanna árið 2014 og er þeim ætlað að rannsaka spillingu í Úkraínu.

Fyrst eftir að lögin umdeildu voru samþykkt í síðustu viku sagðist Selenskí ætla að standa við þau. Forsetinn og ráðgjafar hans héldu því fram að lögin væru nauðsynleg til að sporna gegn áhrifum Rússa í úkraínskri stjórnsýslu.

Sjá einnig: Heitir bótum en stendur við lögin um­deildu

Fregnir hafa þó borist af því að ráðamenn í Evrópu hafi tilkynnti Selenskí að ef lögunum yrði ekki snúið, gætu þau komið niður á fjárhagsaðstoð ríkja Evrópu til Úkraínu. Það er fjárhagsaðstoð sem Úkraínumenn reiða sig á.

Í yfirlýsingu sem hann birti í dag þakkaði Selenskí þeim þingmönnum sem greiddu atkvæði með frumvarpinu í dag. Hann sagði það tryggja sjálfstæði eftirlits- og löggæslustofnana landsins. Það kæmi einnig í veg fyrir utanaðkomandi áhrif á þessar stofnanir.

Meðal annars munu starfsmenn löggæslustofnana sem eiga ættingja í Rússlandi og hafa aðgang að leynilegum gögnum í Úkraínu þurfa að gangast lygapróf.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tjáði sig einnig um málið í dag og sagði að jákvætt skref væri að ræða. Verndun réttaríkisins og barátta gegn spillingu eigi að halda áfram í Úkraínu og það væri mikilvægur liður í umsóknarferli Úkraínu að sambandinu.


Tengdar fréttir

Létu sprengjum rigna á Kænugarð

Að minnsta kosti sex létu lífið og fleiri en fimmtíu eru sárir eftir að Rússar gerður loftárásir á Kænugarð höfuðborg Úkraínu í nótt.

Pokrovsk riðar til falls

Rússneskum hermönnum tókst á dögunum í fyrsta sinn að sækja inn í borgina Pokrovsk í austurhluta Úkraínu. Rússar hafa varið miklu púðri í að reyna að ná borginni á sitt vald á undanförnum mánuðum og eru komnir að jaðri hennar.

Gefa lítið fyrir afarkosti Trumps

„Hin sértæka hernaðaraðgerð mun halda áfram.“ Þetta sagði Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, í morgun. Þá vísaði hann til ummæla Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, frá því í gær um að Pútín hefði tíu til tólf daga til að binda enda á innrásina í Úkraínu.

Selenskí dregur í land

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti tilkynnti í dag að ríkisstjórn hans legði frumvarp fyrir þingið sem gerði embætti sem fást við spillingu í úkraínskum stjórnvöldum óháð framkvæmdarvaldinu á nýjan leik. Hann var sakaður um að grafa undan lýðræði í landinu eftir að frumvarp var keyrt í gegnum þingið á methraða sem kvað á um að setja spillingarrannsóknarembætti undir ríkissaksóknara, sem forseti skipar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×