Erlent

Rann­saka tengsl þyngdar­stjórnunar­lyfja við bráða bris­bólgu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Áætlað er að um ein og hálf milljón manna noti þyngdarstjórnunarlyf í Bretlandi.
Áætlað er að um ein og hálf milljón manna noti þyngdarstjórnunarlyf í Bretlandi. Getty

Rannsókn er hafin í Bretlandi á því hvort notkun þyngdarstjórnunarlyfja á borð við Ozempic og Wegovy geti valdið alvarlegum aukaverkunum í brisi. Heilbrigðisyfirvöldum þar í landi hafa borist mörg hundruð ábendingar um brisbólgu, þar af tíu dauðsföll þess vegna, eftir notkun þyngdarstjórnunarlyfja.

Heilbrigðisyfivöld í Bretlandi hafa beðið fólk sem notar þyngdarstjórnunarlyf og hefur verið lagt inn á spítala vegna brisbólgu að hafa samband og tilkynna um veikindin.

Nokkur hundruð tilkynningar hafa borist af brisbólgu hjá fólki sem notar þessi lyf, en tengsl lyfjanna við sjúkdómin hafa ekki verið staðfest.

Brisið er sérstakur kirtill sem framleiðir hormón og brissafa. Kirtilblöðrur á útkirtilshluta brissins mynda brissafa og seyta honum út í brisgöng sem bera hann ofan í skeifugörnina. Meltingarensím brissafans sjá svo um að melta allar helstu stóru fæðusameindirnar. Hægt er að lesa meira um brisið á Vísindavefnum.

Samkvæmt tilkynningu frá forstjóra lyfjaeftirlits Bretlands er markmið rannsóknarinnar að finna þá sem eru útsettari en aðrir fyrir mögulegum aukaverkunum af völdum lyfjanna.

Þá er einnig biðlað til fólks sem notar lyfin vegna meðferðar við sykursýki 2 og hefur fengið slæmar aukaverkanir að hafa samband.

Rannsakað verði hvort sumir séu erfðafræðilega líklegri en aðrir til að fá brisbólgu vegna lyfjanna.

„Með þessari rannsókn munum við vonandi finna þá sem eru líklegri en aðrir til að finna fyrir þessum hugsanlegum aukaverkunum í brisi. Í kjölfarið getum við fundið bestu lyfin fyrir þau, með gen og þarfir þeirra að leiðarljósi,“ segir Alison Cave, forstjóri lyfjaeftirlits Bretlands.

Frekari umfjöllun um málið má finna í breskum miðlum á borð við Telegraph, Guardian og BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×