Erlent

Fyrsta ástralska geimflaugin flaug í fjór­tán sekúndur

Samúel Karl Ólason skrifar
Eris eldflaugin flaug í einungis fjórtán sekúndur áður en hún var fallin aftur til jarðar.
Eris eldflaugin flaug í einungis fjórtán sekúndur áður en hún var fallin aftur til jarðar. AP/Gilmour Space Technologies

Starfsmenn fyrirtækisins Gilmour Space Technologies gerðu í nótt tilraun til að skjóta fyrstu áströlsku geimflauginni á loft. Hún flaug þó í einungis fjórtán sekúndur og féll til jarðar en þrátt fyrir það segja forsvarsmenn Gilmour Space að tilraunaskotið hafi verið jákvætt.

Um er að ræða eldflaug sem kallast Eris og er hönnuð til að bera tiltölulega smáa gervihnetti á braut um jörðu. Þetta var fyrsta tilraunaskotið með 23 metra háu eldflauginni en eins og áður segir fór hún ekki langt.

Engan sakaði þegar geimflaugin féll til jarðar og mun skotpallurinn ekki hafa orðið fyrir miklum skemmdum.

Ríkisútvarp Ástralíu hefur eftir Adam Gilmour, eiganda Gilmour Space, að hann sé ánægður með það að eldflaugin hafi komist af skotpallinum.

Þetta er í fyrsta sinn í hálfa öld sem geimflaug er skotið á loft frá Ástralíu en í fyrsta sinn sem eldflaugin er framleidd þar í landi.

Fyrir geimskotið höfðu talsmenn Gilmour Space sagt að litið yrði á sem tilraunaskotið sem heppnað, ef Eris færi af skotpallinum, sem geimflaugin gerði.

AP fréttaveitan segir Gilmour Space Technologies að mestu fjármagnað af einkaaðilum en það fékk um fjögur hundruð milljóna króna styrk frá ríkinu fyrr í þessum mánuði. Sá styrkur er til þróunar Eris-eldflaugarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×