Erlent

Maxwell vill frið­helgi fyrir vitnis­burðinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maxwell hefur verið lýst sem vini Epstein, starfsmanni og stundum kærustu.
Maxwell hefur verið lýst sem vini Epstein, starfsmanni og stundum kærustu. Getty/Patrick McMullan

Eftirlitsnefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins hefur hafnað umleitan Ghislaine Maxwell um að hún fái friðhelgi gegn því að bera vitni fyrir nefndinni.

Ef Maxwell hefði orðið að ósk sinni hefði það þýtt að ekki hefði verið hægt að sækja hana til saka í fleiri málum er tengjast Jeffrey Epstein en Maxwell afplánar nú 20 ára dóm fyrir mansal og fleiri brot tengd athafnamanninum.

Maxwell hefur verið stefnt fyrir nefndina í ágúst en lögmaður hennar sagði í erindi til nefndarformannsins og Repúblikanans James Corner að hún gæti ekki tjáð sig í því pólitíska fárviðri sem nú geisaði vegna málsins, án þess að fá tryggingu þess efnis að hún yrði ekki sótt til saka fyrir aðra glæpi tengda Epstein.

Talsmaður nefndarinnar sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu fyrr í vikunni þar sem sagði að erindi lögmannsins yrði svarað innan skamms en nefndin væri ekki að íhuga að veita Maxwell friðhelgi.

Lögmaður Maxwell hefur einnig farið fram á að Maxwell verði hleypt úr fangelsinu til að bera vitni og að hún fái spurningar nefndarinnar fyrirfram. Hún myndi aðeins svara spurningum nefndarinnar fyrir opnum tjöldum ef hún fengi friðhelgi.

Maxwell hefur farið þess á leit við Hæstarétt að hann taki mál hennar fyrir og snúi niðurstöðu undirréttar. Þá hafa margir velt því fyrir sér hvort Donald Trump Bandaríkjaforseti muni náða hana til að þagga niður hvaðeina sem hún gæti haft að segja um tengsl hans við Epstein og mögulega aðkomu að glæpum hans.

Trump hefur hingað til sagt að hann sé ekki að velta því fyrir sér að náða Maxwell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×