Innlent

Viðbragðsaðilar kallaðir út vegna elds í sanddæluskipi á Ísa­firði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðstæður til björgunar voru góðar.
Aðstæður til björgunar voru góðar. LHG

Björgunarskip Landsbjargar á Ísafirði, hafnarbáturinn Sturla Halldórsson og slökkvilið bæjarins voru kölluð til rétt fyrir miðnætti í nótt þegar eldur kom upp í sanddæluskipinu Álfsnesi.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var sett í viðbragðsstöðu á Reykjavíkurflugvelli.

Eldurinn kom upp í vélarrúmi sanddæluskipsins og fylgdi sögu að skipið þyrfti aðstoð við að komast í land. Fimm voru um borð en þá sakaði ekki.

Tilkynningin barst klukkan 23:26 en klukkan 23:39 tilkynnti skipstjórinn að mögulega væri búið að kæfa eldinn.

Nokkrum mínútum síðar kom björgunarskipið Gísli Jóns að Álfsnesinu og rétt eftir miðnætti var vinna hafin við að koma Álfsnesinu að bryggju á Ísafirði.

Aðstæður til aðgerða voru góðar, samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Skipið fékk aðstoð við að komast í land.LHG
Björgunarstörf gengu fljótt fyrir sig.LHG



Fleiri fréttir

Sjá meira


×