Fótbolti

Þurfa að losa leik­menn til að skrá Rashford

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marcus Rashford er mættur til Barcelona.
Marcus Rashford er mættur til Barcelona. Mark Robinson/Getty Images)

Áframhaldandi fjárhagsvandræði spænska stórveldisins Barcelona gera það að verkum að félagið þarf að losa sig við leikmenn til að geta skráð Marcus Rashford sem leikmann liðsins.

Eins og greint hefur verið frá undanfarna daga er Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, við það að ganga í raðir Barcelona.

Talið er að Rashford sé nú þegar lentur í borginni og búinn að standast læknisskoðun. Þó á ýmislegt eftir að gerast áður en hann fær grænt ljós til að spila í spænsku úrvalsdeildinni, sem hefst um miðjan næsta mánuð.

Börsungar hafa nefnilega verið í vandræðum með að skrá leikmenn undanfarin ár. Reglur deildarinnar um launakostnað hafa áður sett strik í reikninginn og nú er það sama uppi á teningnum.

Á síðasta ári lenti félagið til að mynda í vandræðum með að skrá Dani Olmo til leiks, bæði síðasta sumar og eftir áramót.

Sky Sports greinir nú frá því að félagið þurfi að öllum líkindum að selja eða lána leikmenn til að geta skráð Rashford til leiks.

Samkvæmt heimildum Sky Sport vinnur félagið nú hörðum höndum að því að leysa úr þessari flækju.

Þrátt fyrir þessi mögulegu vandræði er þó talið að Börsungar nái að skrá Rashford til leiks í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×