Fótbolti

„For­réttindi fyrir okkur sem eru nærri honum að fá að verða vitni að þessu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Augun voru á Lionel Messi í nótt og hann brást ekki heldur fór á kostum í sigri Inter Miami.
Augun voru á Lionel Messi í nótt og hann brást ekki heldur fór á kostum í sigri Inter Miami. Getty/ Jordan Bank

Argentínska knattspyrnugoðsögnin Lionel Messi átti enn einn stórleikinn með Inter Miami í nótt þegar liðið vann 5-1 stórsigur á útivelli á móti New York Red Bulls.

Messi skoraði sjálfur tvö mörk í leiknum og lagði upp önnur tvö fyrir félaga sína.

Þetta var sjötti leikurinn af síðustu sjö þar sem Messi skorar tvö mörk og Inter Miami fagnar sigri. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með átján mörk og hefur alls komið með beinum hætti að 27 mörkum.

Tilþrifum Messi var afar vel fagnað í stúkunni þrátt fyrir að liðið væri þarna að spila á útivelli.

„Það kemur okkur ekki á óvart að sjá þessi læti í kringum Messi því ég hef verið með honum í átta ár hjá Barcelona og í fimmtán ár með argentínska landsliðinu,“ sagði Javier Mascherano, þjálfari Inter Miami.

„Ekki síst á stöðum þar sem hann kemur ekki reglulega, þar missir fólk sig algjörlega. Ég hef séð þessa klikkun á flugvöllum, á hótelum. Hann kallar þetta fram alls staðar. Ég held að það sé ekki bara vegna þess að hann sé svona góður í fótbolta heldur einnig vegna aðdáunar á honum sem íþróttamanni og hvernig hann hefur breytt fótboltanum,“ sagði Mascherano.

„Leo Messi, Michael Jordan, Rafa Nadal eru mennirnir sem hafa breytt íþróttunum sínum. Það eru forréttindi fyrir okkur sem eru nærri honum að fá að verða vitni að þessu,“ sagði Mascherano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×