Fótbolti

„Þau sakna vina sinna og finnst erfitt að keppa á móti þeim“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þessar stelpur spiluðu allar saman undir merkjum Grindavíkur síðasta sumar.
Þessar stelpur spiluðu allar saman undir merkjum Grindavíkur síðasta sumar. UMF GRINDAVÍK

Eldsumbrotin og náttúruhamfarirnar í nágrenni Grindavíkur hafa gjörbreytt öllu íþróttastarfi hjá Ungmennafélagi Grindavíkur. Stelpur sem spiluðu saman á Símamótinu í fyrra eru nú í þeirri stöðu að þurfa að spila á móti vinkonum sínum og fyrrum liðsfélögum. Faðir einnar stelpunnar segir það mjög erfitt fyrir þær.

Klippa: Erfitt fyrir börnin í Grindavík

Þegar Grindavíkurbær var fyrst rýmdur fyrir tæpum tveimur árum settist fólkið að víðsvegar um landið. 

Ungmennafélag Grindavíkur hélt áfram úti íþróttastarfi yngri flokka með aðstoð annarra félaga, börnin leituðu á æfingar annars staðar en spiluðu saman síðasta sumar undir merkjum Grindavíkur.

Nú hefur hins vegar nánast allt yngri flokka starf félagsins verið lagt af og börnin spila öll með öðrum liðum.

Eggert Sólberg Jónsson, faðir fótboltastelpu úr Grindavík og sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar, segir heilmiklar áskoranir fylgja því.

„Við vorum til dæmis á Símamótinu um helgina þar sem að Grindvíkingar soguðust að hverjum öðrum. Það er bara mjög erfitt.

Þau sakna vina sinna og finnst erfitt að keppa á móti þeim. Það eru ákveðnar tilfinningar sem þau ráða ekki við. En sem betur fer erum við með fært fólk sem þau geta leitað til, fengið aðstoð og hjálp“ sagði Eggert. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×