Enski boltinn

Kaupa ekki Ekitike vegna þess að þeir ætli að selja Isak til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Ekitike fagnar hér marki með Eintracht Frankfurt en hann hefur spilað mjög vel í þýska boltanum.
Hugo Ekitike fagnar hér marki með Eintracht Frankfurt en hann hefur spilað mjög vel í þýska boltanum. Getty/Christof Koepsel

Newcastle vinnur nú hörðum höndum að því að ganga frá kaupum á franska framherjanum Hugo Ekitike frá Eintracht Frankfurt. Enskir fjölmiðlar eru uppfullir af líklegum kaupum enska úrvalsdeildarfélagsins.

Newcastle þarf væntanlega að gera hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins til að ná þeirri sölu í gegn.

Talað er um að Ekitike gæti kostað Newcastle 75 milljónir evra eða um 65 milljónir punda sem gera 10,7 milljarða íslenskra króna.

Margir, þá sérstaklega stuðningsmenn Liverpool, hafa velt því fyrir sér hvort kaupin á Hugo Ekitike þýðir að Newcastle sé um leið að undirbúa sölu á Alexander Isak til Liverpool.

Isak er dýrasti leikmaðurinn í sögu Newcastle síðan að félagið keypti hann frá Real Sociedad árið 2022 fyrir 63 milljónir punda.

David Ornstein hjá The Athletic mætti í útvarpsviðtal á BBC í morgun og sagði ekkert til í því að Iask verði seldur.

Samkvæmt Ornstein þá ætlar Newcastle ekki að selja Isak og hann er með samning til ársins 2028. Svíinn er líka á góðum launum og Newcastle vill bjóða honum enn betri laun.

Það lítur því út að stefnan hjá Newcastle sé frekar að mynda öflugt tvíeyki í framlínu liðsins með þá Hugo Ekitike og Alexander Isak hlið við hlið.

Newcastle er þega búið að kaupa Anthony Elanga frá Nottingham Forest fyrir 55 milljónir punda í sumar. Með komu Ekitike væri liðið heldur betur búið að lífga upp á sóknarleik liðsins í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×