Innlent

Hóta að loka svæðinu við Selja­lands­foss

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Seljalandsfoss er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.
Seljalandsfoss er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisnefnd Suðurlands áformar að krefjast lokunar rekstrar Seljalandsfoss ehf. innan mánaðar, þar sem ekki liggur fyrir heimild fyrir salernisgámum á svæðinu samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Þetta kemur fram í fundargerð Heilbrigðisteftirlits Suðurlands.

Þar segir að verði rekstraraðilar ekki við þessum kröfum sé áformað að leggja 500.000 króna dagsektir á Seljalandsfoss ehf. frá og með 21. júlí næstkomandi, og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hefur borist embættinu.

Í fundargerð heilbrigðiseftirlitsins segir að deiliskipulag fyrir svæðið hafi verið samþykkt og undirritað 10. janúar 2019.

„Með vísan í bréf frá Skipulags- og byggingafulltrúa Rangárþings eystra dags. 26. september 2024 vegna umsóknar um starfsleyfi, liggur ekki fyrir heimild fyrir salernisgámum á svæðinu.“

Þá hafi heilbrigðiseftirlitið sent rekstraraðilum bréf þar sem ítrekað var að gera þyrfti betur, og frestur veittur til 1. júní til að koma með úrbótaáætlun.

Eftirlitið hafi þá sent tölvupóst á rekstraraðila 14. júní til að minna á að frestur væri liðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×