„Starfsfólk lögreglustjórans á Suðurnesjum hefur meðal annars orðið þess vart að einstaklingar séu að sækja um vegabréfsáritanir hjá íslenskum stjórnvöldum þar sem umsóknir séu afgreiddar hraðar og það séu meiri líkur á að þær séu samþykktar,“ segir í umsögn lögreglustjórans á Suðurnesjum um frumvarp utanríkisráðherra um vegabréfsáritanir.
Þar kemur einnig fram að umræddir einstaklingar ætli sér ekki að ferðast um landið heldur afbóki hótel og flug um leið og þeir fái áritunina. Frá áramótum hafa um tuttugu mál komið upp hjá lögregluembættinu sem varða frávísunum með hliðsjón af afturköllun áritunar.
„Þá hefur einnig komið upp mál þar sem einstaklingar bóka sólahringsferð til Íslands til að fá stimpil hér landi til að virkja vegabréfsáritunina svo að viðkomandi geti ferðast áfram inn í Evrópu.“
Vilja skýrara frumvarp
Frumvarp utanríkisráðherra kveður á að utanríkisráðuneytið taki alfarið við framkvæmd vegabréfsáritana en þá sé sami aðilinn sem hefur heimild til að bæði veita og synja vegabréfsáritunum. Þá verði kæruleið aðlöguð að finnskri fyrirmynd sem þýðir að ráðuneytið hefur heimild til að taka aftur upp mál í stað þess að vísa þeim til kærunefndar útlendingamála.
Í umsókninni lýsir lögreglustjórinn yfir ánægju en kallar jafnframt eftir því að ákveðin atriði þurfi að skýra í frumvarpinu.
Þar á meðal er ítarlegri heimild til að afturkalla vegabréfsáritanir, til að mynda ef að einstaklingur hefur gefið upp rangar upplýsingar um tilgang ferðarinnar eða ef að umsækjendurnir séu einungis að nýta sér íslenska áritun til að komast inn á Schengen-svæðið.