Enska landsliðið er nú í æfingabúðum á Spáni og mæta síðan Andorra í undankeppni HM á laugardaginn. Liðið spilar í framhaldinu vináttulandsleik við Senegal í Nottingham á Englandi í næstu viku.
ESPN hefur heimildir fyrir óvenjulegum undirbúningi enska liðsins til að venja leikmenn sína við mikinn hita á HM á næsta ári.
Landsliðsþjálfarinn Thomas Tuchel hefur komið upp sérstökum tjöldum við æfingavöll liðsins í þessum æfingabúðum. Leikmenn þurfa að fara þangað inn og tjöldin verða hituð upp til að auka enn frekar hitaáhrifin.
Leikmenn munu þar keyra sig áfram á þrekhjólum á meðan þjálfarateymið mælir þá í bak og fyrir. Með þessu ætla þeir að komast að því hvernig hver og einn leikmaður bregst við áreynslu í miklum hita.
Það verða að minnsta kosti fjórar borgir á heimsmeistaramótinu þar hitinn fer upp fyrir 32 gráður. Rannsókn hjá háskólanum í Belfast bendir einnig til þess að hitinn fari upp í 28 gráður á fjórtán af sextán leikstöðum.
Já það verður mjög heitt á heimsmeistaramótinu næsta sumar og enska landsliðið ætlar að undirbúa sig vel fyrir það.