Erlent

Frestar fimm­tíu prósenta tollum á Evrópu­sam­bandið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Trump ræddi efni símtalsins við blaðamenn áður en hann steig um borð í forsetaþotuna.
Trump ræddi efni símtalsins við blaðamenn áður en hann steig um borð í forsetaþotuna. AP/Manuel Balce Ceneta

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að fresta gildistöku fimmtíu prósenta tolla á vörur frá Evrópusambandinu fram til níunda júlí næstkomandi. Hann ræddi tollamálin við Ursulu von der Leyen, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins símleiðis í kvöld.

Til stóð að fimmtíu prósenta tollar á allar vörur frá Evrópusambandinu tækju gildi fyrsta júní en eftir símtalið verður því frestað um rúman mánuð til að hægt sé að ljúka viðræðum og koma í veg fyrir allsherjartollastríð yfir Atlantshafið.

Trump hefur undanfarið látið þá skoðun sína í ljós að honum þyki viðræður við leiðtoga í Evrópu um nýtt viðskiptafyrirkomulag ganga hægt fyrir sig. Hann fékk sig fullsaddan að því er virtist á föstudaginn síðasta þegar hann tilkynnti um fimmtíu prósenta tollana á samfélagsmiðlum.

Hann hefur látið hafa það eftir sér að Evrópusambandið sé „mjög erfitt að eiga við“ og að viðræðurnar væru ekki að ná neinum árangri. Þannig myndu tollarnir taka gildi strax um mánaðamótin, spýttu þeir ekki í lófana. Svo virðist sem að Ursulu von der Leyen hafi tekist að sefa Bandaríkjaforseta örlítið.

„Ég samþykkti framlenginguna — 9. júlí 2025 — Ég gerði það glaður. Framkvæmdastjórinn segir að viðræðurnar hefjist undir eins,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðlum í kjölfar símtalsins.

Ursula von der Leyen tjáði sig einnig um efni símtalsins á samfélagsmiðlum. Evrópusambandið og Bandaríkin eigi mikilvægasta og nánasta viðskiptasamband heims.

„Evrópa er tilbúin til að halda viðræðum áfram hratt og ákveðið. Til að ná góðum samningi þyrftum við til níunda júlí,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×