Innlent

Burðar­dýr í flug­vél Play „fríkaði út“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Von er á farþegum í flugi Play frá Madríd í gærkvöldi til Keflavíkur á sjötta tímanum í dag.
Von er á farþegum í flugi Play frá Madríd í gærkvöldi til Keflavíkur á sjötta tímanum í dag. Vísir/Vilhelm

Lenda þurfti farþegaflugvél Play á leiðinni frá Spáni til Íslands á Írlandi í nótt vegna bráðra veikinda farþega. Samkvæmt heimildum fréttastofu er grunur um að farþeginn hafi verið burðardýr með fíkniefni innvortis.

Vélin var á leiðinni frá Madríd til Keflavíkur eftir að hafa flogið suður til Spánar fyrir um daginn. Vegna stoppsins og reglna um hvíldartíma áhafnar þurfti að gista í Dublin í nótt áður en för var haldið áfram eftir hádegið í dag.

Farþegi í vélinni lýsir því þannig að karlmaður hafi „fríkað út“ í vélinni og strax kviknað grunur að um burðardýr væri að ræða. Honum hafi verið haldið niðri í vélinni þar til lent var í Dublin.

Birgir Olgeirsson, samskiptastjóri Play, staðfestir að millilenda hafi þurft í Dublin vegna bráðra veikinda farþega. Flugfélagið hafi útvegað farþegum hótel yfir nóttina sem hafi tekið nokkurn tíma vegna þess að hótel í Dublin voru þéttbókuð . Hann sagðist ekki hafa upplýsingar um afdrif farþegans sem veiktist.

Ekki þarf að fjölyrða um hættuna sem fylgir því að flytja fíkniefni innvortis. Líkfundarmálið í Neskaupstað árið 2007 er dæmi um slíkt þegar litáískur karlmaður með fíkniefni innvortis lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×