Innlent

Malakauskas fékk 16 mánaða fangelsis­dóm

Breki Logason skrifar
Tomas Malakauskas hylur andlit sitt.
Tomas Malakauskas hylur andlit sitt.

 

Tomas Malakauskas, frægasti Lithái íslandssögunnar, var rétt í þessu dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir að rjúfa endurkomubann með því að koma hingað til lands.

Tomas var dæmdur í fangelsi árið 2004 fyrir aðild sína í hinu svokallaða líkfundarmáli. Þá faldi hann ásamt tveimur öðrum líkið af Vaidas Jucevicius í höfninni í Neskaupstað með 400 grömm af amfetamíni innvortis. Í kjölfarið af þeim dómi var hann dæmdur í 10 ára endurkomubann hingað til lands.

Tomas fékk reynslulausn þegar hann átti 14 mánuði eftir af fangelsisdómnum í líkfundarmálinu. Hann hins vegar rauf þessa reynslulausn sína með því að koma hingað til lands og verður því að afplána þá 14 mánuði sem hann átti eftir af fyrri dómi. Þegar tekið var mið af sakaferli taldi dómurinn rétt að dæma Tomas í 16 mánaða fangelsi en til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 21. nóvember sl. til 4. desember.

Tomas kom hingað til lands fyrir rúmum þremur mánuðum. Yfirvöld voru hinsvegar lengi að átta sig á veru Malakauskas sem hefur tekið upp eftirnafn íslenskrar unnustu sinnar sem hann á barn með. Tomas rauf ekki bara endurkomubann heldur var hann einnig gripinn með 26 grömm af amfetamíni. Amfetamínið var gert upptækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×