Innlent

Mikill við­búnaður vegna sjóslyss við Ísa­fjarðar­djúp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
image00008
Landsbjörg

Hættu hefur verið afstýrt eftir að farþegabátur með 49 manns um borð tók niðri við Ögurvík í Ísafjarðardjúpi á tólfta tímanum í dag. Farþegarnir voru að mestu erlendir ferðamenn úr skemmtiferðaskipi sem liggur við höfn á Ísafirði.

Farþegar voru fluttir yfir í skip björgunarsveitanna fyrir vestan að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Björgunarskipin Svanur frá Súðavík, Gísli Jóns og Kobbi Láka voru kölluð á vettvang og tóku þátt í aðgerðum.

Landsbjörg

Skipstjórinn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rétt fyrir klukkan tólf og var hópslysaáætlun virkjuð vegna fjölda farþega. Almannavarnir og aðrir viðbragðsaðilar voru þegar kallaðir út. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og varðskipið Þór voru einnig send til aðstoðar, ásamt sjóbjörgunarsveitum á Vestfjörðum.

Landsbjörg

Báturinn, sem sigldi frá Ísafirði í morgun, er nú laus og líklegt að hann verði dreginn til hafnar á Ísafirði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum voru 47 farþegar og tveir í áhöfn. Þjónustubátur frá fiskeldisfyrirtækinu Háafelli var einnig nærri.

Landsbjörg

Henný Þrastardóttir, einn eigenda Sjóferða ehf., segir að bátur frá þeirra fyrirtæki hafi komið strax á vettvang til aðstoðar, þó að báturinn sem lenti í vandræðum sé ekki á þeirra vegum.

Til stendur að taka á móti farþegunum í höfn á Ísafirði samkvæmt skipulagi almannavarna.

Landsbjörg

Á laugardag var einmitt æfð sams konar hópslysaaðgerð í Ísafjarðardjúpi. Að sögn lögreglu tókst sú æfing vel og sömu viðbragðsaðilar komu nú að raunverulegum aðstæðum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×