Fótbolti

Jón Þór: Höldum á­fram að fá á okkur ó­dýr mörk

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var ekki sáttur við varnarleik sinna manna.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var ekki sáttur við varnarleik sinna manna. Vísir/Hulda Margrét

Skagamenn hafa fengið á sig 18 mörk í fyrstu sjö leikjum sínum í Bestu-deild karla í fótbolta en eftir 3-1 tap liðsins gegn FH í sjöundu umferð deildarinnar uppi á Skipaskaga í dag er liðið í næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig. 

„Við vorum með fín tök á þessum leik allan tímann. Við komum sterkir inn í leikinn og svo öflugir inn í seinni hálfleikinn. Það er hins vegar sama sagan hjá okkur og hefur verið í upphafi þessa sumars að við erum að fá á okkur allt of ódýr mörk,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari Skagaliðsins, ósáttur við niðurstöðuna en sáttur við margt í spilamennskunni.

„Við sleppum nokkrum sinnum einir í gegn í þessum leik og Gísli Laxdal hefði getað komið okkur yfir en nær ekki að klára það færi. Mathias ver svo vel frá Rúnari Má og við fengum fjölmargar stöður og sjénsa á að skora fleiri en eitt mark í þessum leik,“ sagði Jón Þór þar að auki.

Skagamenn sem byggðu góðan árangur sinn á sterkum varnarleik síðasta sumar hafa nú fengið á sig 18 mörk í fyrstu sjö deildarleikjum þessa keppnistímabils. Jón Þór er full meðvitaður um að slík tölfræði kann ekki góðri lukku að stýra.

„Það er hins vegar ljóst að ef að við höldum áfram að fá á okkur svo mörg ódýr mörk og nýtum ekki sjénsana þá verða stigin fá. Við getum tekið fullt jákvætt úr þessum leik en við fáum ekkert fyrir það í stigum talið og um það snýst þetta,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×