Fótbolti

Íslendingaliðið stríddi PSV en stóð ekki í vegi fyrir sögu­legu klúðri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristian Hlynsson var í byrjunarliði Sparta og fór út af á sama tíma og Nökkvi Þeyr kom inn á.
Kristian Hlynsson var í byrjunarliði Sparta og fór út af á sama tíma og Nökkvi Þeyr kom inn á.

PSV er hollenskur meistari eftir 1-3 sigur gegn Sparta Rotterdam í lokaumferðinni. Kristian Hlynsson var í byrjunarliði Sparta Rotterdam og Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn af bekknum. Spörtungar stríddu PSV aðeins en gátu ekki aðstoðað Ajax, sem fleygði titlinum frá sér á lokakafla tímabilsins.

PSV var búið að gefa upp alla von um að verða meistari fyrir mánuði síðan, Ajax var með svo afgerandi forystu í efsta sæti deildarinnar. Síðan þá hefur hins vegar allt gengið á afturfótunum hjá Ajax og PSV vann sig upp í efsta sætið.

PSV dugði því sigur í dag og sá sigur skilaði sér, þó liðinu hafi verið skotinn skelkur í bringu þegar Sparta jafnaði leikinn í upphafi seinni hálfleiks. En PSV var fljótt að komast aftur yfir og Ajax vermdi toppsætið ekki nema í um sex mínútur.

Kristian Nökkvi Hlynsson byrjaði og spilaði 86 mínútur, honum var skipt út á sama tíma og Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn á.

Elías skoraði

Elías Már Ómarsson skoraði opnunarmarkið 1-1 jafntefli NAC Breda gegn Willem II í lokaumferðinni. Rúnar Þór Sigurgeirsson var ekki í leikmannahópi Willem II.

NAC Breda endaði í fimmtánda sæti deildarinnar en Willem II í sextánda sæti og er á leið í umspil um sæti í úrvalsdeildinni, gegn liðinu sem endaði í þriðja sæti næstefstu deildar.

Brynjólfur og Kolbeinn komu inn af bekknum

Brynjólfur Darri Willumsson kom inn af varamannabekknum hjá Groningen á 56. mínútu í 2-0 tapi gegn Zwolle. Groningen endaði í þrettánda sæti deildarinnar, jafnt Sparta Rotterdam að stigum.

Kolbeinn Finnsson byrjaði á bekknum en spilaði seinni hálfleikinn fyrir Utrecht í 0-0 jafntefli á útivelli gegn Fortuna. Utrecht endaði í fjórða sæti deildarinnar og fer í undankeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×