Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að frumvarpið færi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í stað atvinnuveganefndar eins og ráðherrann lagði upp með. Hún lagði til að færi fram atkvæðagreiðsla en fundi var svo frestað og fer hún því fram á mánudaginn.
Man ekki eftir öðru eins
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, segir fundinn hafa verið til marks um klaufaskap hjá ríkisstjórninni.
„Það kom á daginn að stjórnarliðar voru of fámennir og treystu sér ekki í atkvæðagreiðslu um nefndarvísunina og þess vegna frestaði forseti atkvæðagreiðslunni fram á mánudag. Þetta kom okkur töluvert á óvart og var hálfkauðslegt hjá verkstjórninni,“ segir hann.
„Þarna er búið að leggja mikið undir að klára málið í dag, síðan lýkur umræðunni og þá treysta stjórnarliðar sér ekki í atkvæðagreiðslu um nefndarvísunina. Ég man varla eftir neinu svona áður,“ segir Bergþór.
Málþóf ómögulegt í fyrstu umræðu
Hann segir ljóst að um sé að ræða stórt mál, hann segir frumvarp atvinnuvegaráðherra tryggilega stærsta mál ekki aðeins yfirstandandi þings heldur kjörtímabils ríkisstjórnarinnar alls. Fyrsta umræða hafði staðið í á fjórða tug klukkustunda þegar henni lauk og var þannig met sett. Ekkert frumvarp hefur verið lengur rætt í fyrstu umræðu.
„Þessi umræða er öll byggð á misskilningi hjá stjórnarliðum. Þeir eru eitthvað litlir í sér virðist vera vegna þessa og líður sennilega illa með málið, sérstaklega landsbyggðarþingmönnunum. Það er nú bara þannig að hver þingmaður mátti fara í tvær ræður og önnur er fimmtán og hin er fimm mínútur, það er allt og sumt. Það er ekki hægt að stunda það sem sumir kalla málþóf í fyrstu umræðu,“ segir Bergþór.
„Það mátti alveg reikna með því að það yrðu töluverðar umræður út af þessu máli þrátt fyrir takmarkanir þar á,“ segir hann.