Fótbolti

Lille bjargaði mikil­vægu stigi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson gæti spilað aftur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en baráttan er hörð.
Hákon Arnar Haraldsson gæti spilað aftur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en baráttan er hörð. Getty/Sylvain Dionisio

Hákon Arnar Haraldsson var nýfarinn af velli þegar Lille skoraði jöfnunarmarkið í 1-1 jafntefli gegn Marseille. Stigið var mikilvægt fyrir Lille sem er í harðri Meistaradeildarbaráttu.

Hákon byrjaði á hægri kantinum hjá Lille og spilaði rúmar sjötíu mínútur, átti eina ágætis fyrirgjöf en ógnaði annars lítið.

Marseille komst yfir á 57. mínútu og í kjölfarið gerði Lille þrjár breytingar á sínu liði. Hákon fór af velli fyrir Mitchel Bakker. Breytingarnar báru árangur því á 74. mínútu skoraði Matias Fernandez eftir undirbúning Jonathan David og bjargaði stigi fyrir heimamenn.

Aðeins tvær umferðir eru eftir af deildinni, Lille á útileik gegn Brest (9. sæti) og heimaleik gegn Reims (13. sæti). PSG er löngu orðið meistari en stöðubaráttan í næstu sætum fyrir neðan er mjög hörð.

Marseille er í öðru sæti með 59 stig, síðan kemur Mónakó með 58 stig en Nice, Lille og Strasbourg eru jöfn með 57 stig. Lyon situr í sjöunda sætinu með 54 stig.

Til mikils er að vinna. Efstu þrjú sætin gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni. Fjórða sætið fer í Meistaradeildarumspil. Fimmta sætið fer í Evrópudeildina. Sjötta sætið fer í Sambandsdeildarumspil.

Orri utan hóps 

Orri Steinn Óskarsson var utan hóps hjá Real Sociedad, sem gerði markalaust jafntefli við Athletic Club í 34. umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×