Atvikinu er lýst í dómskjölum sem eru sögð innihalda ítarlegar lýsingar á nauðgunum, líkamsárásum og þvingunarstjórn. Ein kona sakar Tate um að hóta að drepa sig og önnur segir hann hafa tjáð henni að hann myndi drepa hvern þann sem myndi tala við hana. Þá segir sú þriðja Tate hafa fullyrt að hann hafi áður myrt fólk. Tate hafnar ásökununum og kallar þær „lygar“ og „grófan uppspuna“. Hann hefur sjálfur lýst sér sem kvenhatara.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu og fjallar ítarlega um ásakanirnar. Refsimál og einkamál hafa einnig verið höfðuð gegn Tate í Bandaríkjunum og Rúmeníu.
Störfuðu hjá Tate
Áðurnefnt einkamál í Bretlandi varðar atvik sem konurnar fjórar segja að hafi átt sér stað í Luton og Hitchin í Englandi á árunum 2013 til 2015. Tvær kvennanna unnu fyrir vefmyndavélafyrirtæki Tate árið 2015 en hinar tvær voru í sambandi með honum árin 2013 og 2014.
BBC greinir frá því að Andrew Tate sé meðal annars sakaður um eftirfarandi:
- Nauðga og kyrkja konu sem var að vinna fyrir vefmyndavélafyrirtækið hans árið 2015
- Ráðast á aðra konu sem var einnig að vinna fyrir vefmyndavélafyrirtækið á sama tíma
- Kyrkja áðurnefndar konur svo oft að þær fengu rauða bletti á augun en þetta er sagt afleiðing sprunginna háræða og algeng aukaverkun köfnunar
- Segja við þriðja aðila málsins: „ég er bara að velta því fyrir mér hvort ég eigi að nauðga þér eða ekki“ áður en hann nauðgaði henni og kyrkti hana
- Kyrkja fjórða aðila málsins á meðan kynlífi stóð þar til hún missti meðvitund, og halda síðan áfram að stunda kynlíf með henni
Þrjár kvennanna höfðu áður tilkynnt Tate til lögreglunnar en árið 2019 ákvað breska ákæruvaldið að höfða ekki sakamál. Konurnar fara fram á skaðabætur.