Ráðherrar Vinstri grænna pökkuðu saman á skrifstofum sínum í ráðuneytunum í gær. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar sagði þá liggja beinast við að ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tækju við ráðuneytum sem heyrðu undir VG.
Ákvörðun liggi væntanlega fyrir í dag
Samkvæmt heimildum fréttastofu eru formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að funda um hverjir taka við ráðuneytum Vinstri grænna í starfsstjórn sem situr þar til búið er að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningar sem fara fram þann 30. nóvember.
Þingflokksfundur hjá Framsóknarflokknum hefur verið boðaður klukkan eitt en þar verður samkvæmt heimildum fréttastofu greint frá því hverjir taka við ráðuneytum VG. Talið er líklegt að Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra taki við innviðaráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur en hún tók við af honum í ráðuneytinu í vor þegar Katrín Jakobsdóttir sagði af sér ráðherraembætti til að fara í forsetaframboð.
Ríkisstjórnarfundur hefur svo verið boðaður klukkan fjögur. Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið líklegt að boðað verði boðað til ríkisráðsfundar með Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á Bessastöðum sem færi þá fram síðar í dag eða á morgun.
Á ríkisráðsfundi er ráðherraskipan í nýrri starfsstjórn tilkynnt en á fundinum þurfa ráðherrar Vinstri grænna formlega að skila inn umboði sínu. Eftir það tekur við starfsstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar.