Pele Broberg, þingmaður Naleraq-flokksins og fyrrverandi ráðherra gaf nýverið frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvatti ríkisstjórnina til að koma Watson fyrir í gæsluvarðhaldi í Danmörku en Naaja Nathanielsen dómsmálaráðherra gefur lítið fyrir fullyrðingar hans.
Í viðtali við grænlenska ríkisútvarpið segir Naaja að brottvísun Paul Watson næði ekki nokkurri átt.
Hefur valdið nægum vandræðum
Pele Broberg fyrrverandi ráðherra í iðnaðar-, viðskipta-, utanríkis- og loftslagsmálum, gaf á dögunum frá sér yfirlýsingu til grænlenskra fjölmiðla þar sem Grænland hafa þurft að þola nógu marga álitshnekki af völdum gæsluvarðhaldsins yfir Watson.
„Grænlenska þjóðin er föst í miðjunni á dönsku ábyrgðarsvæði. Lögreglan er dönsk. Dómsmálaráðuneytið er danskt. Það verður tekin dönsk ákvörðun um það hvað verður gert í máli Paul Watsons,“ sagði hann.
„Vísum því Paul Watson til Danmerkur og leyfum Danmörku að sjá um það í gegnum eigin stofnanir. Hvað ætlum við að gera við hann? Hann hefur valdið nægum vandræðum,“ sagði hann svo.
Pele hafði áhyggjur af þeirri neikvæðu umfjöllun á heimsvísu sem handtaka Watsons hefur vakið.
„Okkar land má ekki - aftur - borga fyrir afglöp Dana, sem hafa valdið þvílíku bakslagi í sjálfbærum veiðum sela og hvala og orðspori okkar,“ sagði hann.
Kostnaðarsamt og óraunhæft
Naaja Nathanielsen dómsmálaráðherra gefur þó ekki mikið fyrir yfirlýsingar Pele og segir í viðtali við ríkisútvarpið grænlenska að möguleg brottvísun á Watson næði hreinlega engri átt.
„Ríkisstjórnin hefur ekki íhugað að óska eftir flutningi á Watson til Danmerkur. Paul Watsn var handtekinn hér á landi og því þarf að fara með mál hans hér á landi, bæði hjá lögreglu og fyrir dómstólum,“ segir hún.
Paul Watson var handtekinn við höfnina í Nuuk þann 21. júlí síðastliðinn á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar sem gefin var út af japönskum stjórnvöldum árið 2012 vegna aðildar hans á árás á japanskan hvalveiðibát í suðurskautinu.
Síðan þá hefur hann sætt gæsluvarðhaldi í Nuuk og verður honum haldið þar í það minnsta til fimmta september vegna áhyggja um að hann flýi land, sem hann gerði síðast þegar hann var handtekinn í Þýskalandi fyrir nokkrum árum síðan.
Drægi varla úr áhuga fjölmiðla á málinu
Naaja Nathanielsen segir það að flytja Watson í danska fangageymslu hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir grænlenska ríkið.
„Ef hann yrði fluttur í danska fangageymslu þyrfti að flytja hann fram og til baka á milli Danmerkur og Grænlands í hvert skipti sem réttarhöld fara fram þar serm lögsagan er á Grænlandi,“ segir hún.
„Slík atburðarás mun varla verða til þess að draga úr áhuga fjölmiðla á málinu. Þannig mun formaður Naleraq-flokksins varla fá sínu framgengt með því að koma Paul Watson fyrir í dönsku fangelsi á meðan málið fer sinn farveg,“ segir Naaja Nathanielsen dómsmálaráðherra Grænlands.