Með þessum frábæra sigri, á liði sem er í fjórða sæti á Styrkleikalista FIFA og liði sem er að undirbúa sig fyrir Ólympíuleika í París, þá tryggði íslenska liðið sér sæti á Evrópumótinu sem fer fram í Sviss á næsta ári.
Íslenska liðið skoraði eitt mark snemma í fyrri hálfleik, eitt mark í byrjun seinni hálfleiks og svo eitt mark undir lok leiksins.
Ingibjörg Sigurðardóttir kom Íslandi i 1-0 með skalla af stuttu færi á 14. mínútu þegar Sveindís Jane Jónsdóttir skallaði áfram hornspyrnu Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.
Alexandra Jóhannsdóttir skoraði annað markið á 52. mínútu með föstu skoti utan teigs eftir að Sveindís Jane vann boltann í pressunni og gaf hann út á Alexöndru.
Sveindís Jane skoraði síðan þriðja markið sjálf á 83. mínútu þegar hún komst inn í sendingu varnarmanns við vítateiginn og afgreiddi boltann í markið.
Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leiknum í Laugardalnum í gær sem og þegar fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir bjargaði marki á ótrúlegan hátt.