Sviss varð fyrsta þjóðin til að komast á EM en þær svissnesku komust þangað 4. apríl 2023 þegar ákveðið var að keppnin færi fram í Sviss.
Þýskaland varð númer tvö í röðinni 4. júní síðastliðinn og seinna sama dag innsigluðu spænsku heimsmeistararnir líka sæti sitt á EM 2025.
Íslensku stelpurnar bættust síðan í hópinn í gær. Tvö lið úr riðli Íslands hafa því tryggt sér EM-sætið fyrir lokaumferðina.
Seinna um daginn í gær bættust síðan tvær þjóðir í hópinn.
- Þjóðir sem eru komnar á EM 2025 í Sviss:
- 1. Sviss (4. apríl 2023)
- 2. Þýskaland (4. júní 2024)
- 3. Spánn (4. júní 2024)
- 4. Ísland (12. júlí 2024)
- 5. Danmörk (12. júlí 2024)
- 6. Frakkland (12. júlí 2024)
Dönsku stelpurnar tryggðu sér EM-sætið með 3-0 útisigri á Belgum en Spánn er búið að vinna þann riðil.
Frakkland tryggði sér EM-sætið með 2-1 sigri á Svíum en Svíar spilar úrslitaleik við England um sætið í lokaumferðinni.

Mikil spenna er í fjórða og síðasta riðlinum þar sem Holland (8 stig), Noregur (6 stig), Ítalía (6 stig) og Finnland (5 stig) eiga öll möguleika á sæti á EM. Finnar heimsækja Ítala í lokaumferðinni en Norðmenn taka á móti Hollandi.
Hin átta sætin verða í boði í umspilinu en þangað fara liðin í þriðja og fjórða sæti riðlana í A-deild og mæta þar liðum úr B-deildinni.
Þetta er fimmta Evrópumót íslenska kvennalandsliðsins í röð. Íslenska var níunda þjóðin til að tryggja sig inn á bæði EM 2022 og á EM 2017 en síðasta þjóðin sem tryggði sig inn á EM 2013 og sú næstsíðasta sem komst inn á EM 2009.
Þetta er því í fyrsta sinn sem Ísland er ein af fyrstu fimm þjóðunum til að tryggja sér EM-sætið.