Fótbolti

Skotinn Tier­n­ey ekki meira með á EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hinn 27 ára gamli Kieran Tierney spilar ekki meira með á EM.
Hinn 27 ára gamli Kieran Tierney spilar ekki meira með á EM. AP Photo/Alessandra Tarantino

Skoski varnarmaðurinn Kieran Tierney er miður sín eftir að í ljós kom að hann verður ekki meira með á EM karla í knattspyrnu sem nú fer fram í Þýskalandi. Skotland er með eitt stig að loknum tveimur leikjum.

Tierney fór út af vegna meiðsla í læri þegar Skotland gerði jafntefli við Sviss í 2. umferð A-riðils. Þessi 27 ára gamli varnarmaður var mikið meiddur á nýafstaðinni leiktíð þar sem hann spilaði með Real Sociedad á Spáni. Var hann á láni frá enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal.

„Elska þetta lið og þessa drengi. Þetta mun líða hjá,“ sagði Tierney á samfélagsmiðlum þegar hann tilkynnti að hann yrði ekki meira með á mótinu.

Skotar eru að glíma við varnarkrísu þar sem Aaron Hickey og Nathan Patterson meiddust í aðdraganda mótsins og Ryan Porteous fékk rautt spjald í fyrsta leik. Hann var svo dæmdur í tveggja leikja bann og verður því ekki með í lokaleiknum gegn Ungverjalandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×