Innlent

Albert Guð­munds­son verður á­kærður fyrir kyn­ferðis­brot

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. vísir/vilhelm

Ríkissaksóknari hefur fellt ákvörðun héraðssaksóknara í máli Alberts Guðmundssonar, leikmanns Genóa í knattspyrnu, úr gildi og lagt fyrir héraðssaksóknara að höfða sakamál á hendur honum. Hann verður því ákærður fyrir kynferðisbrot. 

Þetta staðfestir Eva Bryndís Helgadóttir lögmaður konunnar sem lagði fram kæru á hendur Alberti síðasta sumar.

Héraðssaksóknari tók í febrúar á þessu ári ákvörðun um að fella málið niður. Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara sem hefur nú fellt ákvörðun héraðssaksóknara úr gildi. 

Héraðssaksóknari kemur því til með að gefa út ákæru á hendur Alberti.  

Eva Bryndís segir að í niðurstöðu ríkissaksóknara sé tekið fram að talið sé líklegt að gögn málsins leiði til sakfellis. 

„Framburður brotaþola þyki einkar trúverðugur,“ segir Eva Bryndís og enn fremur:

„Auðvitað er þetta í samræmi við það sem minn umbjóðandi sagði í upphafi. Þannig það kemur ekki á óvart að henni sé trúað.“

Albert hefur síðustu tvö ár leikið með liði Genóa í ítölsku úrvalsdeildinni með góðum árangri. Áður hafði hann leikið með liðum AZ Alkmar og PSV Eindhoven í Hollandi. Frá því að málið kom upp hefur Albert ekki mátt leika með landsliði Íslands, utan umspilsleikja sem fóru fram í mars. Þá var ákvörðun héraðssaksóknara, um að fella málið niður, enn í gildi. 


Tengdar fréttir

Mál Alberts látið niður falla

Héraðssaksóknari hefur fellt niður kynferðisbrotamál gegn knattspyrnumanninum Alberti Guðmundssyni. Síðasta sumar var hann kærður fyrir kynferðisbrot.

Íhugar alvarlega að kæra niðurfellingu máls Alberts

Kona sem kærði knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson fyrir nauðgun íhugar alvarlega að kæra niðufellingu héraðssaksóknara á málinu. Hún hefur tíu daga til að ákveða sig. Degi áður en kærufrestur rennur út leikur karlalandsliðið í knattspyrnu við það ísraelska í umspili um sæti á EM 2024. 

Unga konan sem kærði Albert muni eyða ævinni í að vinna úr málinu

Lögmaður konunnar sem kærði knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson fyrir kynferðisbrot skoðar nú hvort kæra skuli ákvörðun héraðssaksóknara um að láta málið niður falla til ríkissaksóknara. Málið hafi verið afar erfitt fyrir ungu konuna, sem muni eyða ævinni í að vinna úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×