Innlent

Aug­­ljóst að fylgið er enn á veru­­legri hreyfingu

Kjartan Kjartansson og Heimir Már Pétursson skrifa
Ólafur Þ. Harðarson greindi niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar á fylgi forsetaframbjóðenda í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Ólafur Þ. Harðarson greindi niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar á fylgi forsetaframbjóðenda í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Vísir/Stöð 2

Fylgi við forsetaframbjóðendur er enn á verulegri hreyfingu nú þegar rúm vika er til kosninga, að mati prófessors í stjórnmálafræði. Hann segir mjög athyglisvert að forystusauðurinn Katrín Jakobsdóttir mælist aðeins með fjórðungsfylgi.

Fylgisaukning Höllu Tómasdóttur heldur áfram í nýrri könnun Maskínu sem sagt var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hún mælist nú með næstmest fylgi á eftir Katrínu, fyrrverandi forsætisráðherra. Munurinn á Höllu, nöfnu hennar Logadóttur og Baldri Þórhallssyni er þó ómarktækur tölfræðilega.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði stóru myndina eiginlega óbreytta eins og hún birtist í könnuninni. Katrín mælist nú með aðeins betra forskot en í fyrri könnunum þar sem munurinn á henni og Höllu Hrund var ekki marktækur. Þá sé athyglisvert að Höllurnar tvær skipti um sess.

„Það er augljóst að fylgið er ennþá á verulegri hreyfingu. Auðvitað mjög athyglisvert að Katrín, sem er efst, er aðeins með fjórðungsfylgi,“ sagði Ólafur í kvöldfréttunum.

Með hverri könnuninni sem sýni niðurstöður af þessu tagi aukist líkurnar á því að Katrín haldi forystunni.

„Hins vegar vitum við frá fyrri kosningum og könnunum að menn eru að skipta um skoðun. Margir eru kannski með tvo, þrjá í huganum og þeir eru í rauninni að skipta um skoðun alveg fram á kjördag þannig að þetta verður spennandi alveg fram á kosninganótt,“ sagði Ólafur sem taldi þó minnstar líkur á að Halla Hrund næði sér aftur á skrið eftir fylgistap í undanförnum könnunum.

Staðan gæti þó breyst verulega ennþá. Benti Ólafur í því samhengi á kosningaspá sem Baldur Héðinsson, stærðfræðingur, birtir sem gaf Katrínu um þriðjungslíkur á að ná kjöri.

„En það þýðir auðvitað að það eru tveir þriðju líkur að hún nái ekki kjöri,“ sagði Ólafur.

Sú kosningaspá var uppfærð í gær og höfðu líkur Katrínar á sigri þá aukist úr 36 prósentum í 39 prósent. Halla Hrund kom þar næst með um það bil fjórðungslíkur á sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×