Fótbolti

Senda at­kvæði sín með pósti frá EM í Þýska­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Landsliðsmenn Englands á æfingu.
Landsliðsmenn Englands á æfingu. Michael Regan/Getty Images

Enska knattspyrnusambandið mun sjá til þess að landsliðsmenn Englands á Evrópumótinu í sumar geti greitt atkvæði í þingkosningum Bretlands.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, boðaði til þingkosninga í gær. Kjördagur er settur 4. júlí, degi áður en 8-liða úrslit EM fara fram.

Samkvæmt heimildum Telegraph mun enska knattspyrnusambandið safna atkvæðum landsliðsmanna og senda með pósti til kjörnefndar.

Þeir eru vissulega vanir því að safna atkvæðum landsliðsmanna með þessum hætti en sömu ráða þurfti að grípa til árið 2016 þegar Brexit kosningar fóru fram á sama tíma og EM í Frakklandi þar sem England datt úr leik eftir 2-1 tap gegn Íslandi í afar eftirminnilegum leik. 

Það má fastlega gera ráð fyrir því að fjölmiðlar ytra gangi á eftir landsliðsmönnum og þjálfara liðsins, líkt og þeir gerðu í Brexit kosningunum 2016, og krefjist svara um afstöðu þeirra. 

Þá sérstaklega í ljósi þess að niðurstöður kosninganna munu liggja fyrir sama dag og 8-liða úrslitin fara fram, að því gefnu að England nái svo langt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×