Fótbolti

Motta tekur við Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thiago Motta kom Bologna í Meistaradeild Evrópu.
Thiago Motta kom Bologna í Meistaradeild Evrópu. getty/Image Photo Agency

Thiago Motta hefur samþykkt að taka við þjálfun ítalska stórliðsins Juventus. 

Félagaskiptavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá þessu í dag. Hann segir að Motta hafi látið forráðamenn Bologna vita af ákvörðun sinni og hann muni skrifa undir þriggja ára samning við Juventus.

Í síðustu viku rak Juventus Massimiliano Allegri, tveimur dögum eftir að hann gerði liðið að ítölskum bikarmeisturum. Það virðist hafa verið löngu ákveðið að Allegri myndi ekki halda áfram með Juventus eftir tímabilið en framkoma hans í og eftir bikarúrslitaleikinn fékk forráðamenn félagsins til að taka í gikkinn.

Motta tók við þjálfun Bologna í september 2022. Á síðasta tímabili endaði liðið í 9. sæti. Gengið í vetur hefur hins vegar verið frábært og Bologna er búið að tryggja sér Meistaradeildarsæti. Bologna er í 3. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, jafn mörg og Juventus sem er í 4. sætinu.

Hinn 41 árs Motta ætlar ekki að fylgja Bologna eftir í Meistaradeildinni á næsta tímabili heldur reyna sig hjá Juventus, sigursælasta félagi Ítalíu. Gamla konan varð ítalskur meistari níu sinnum í röð en hefur ekki unnið titilinn síðan 2020.

Áður en Motta tók við Bologna stýrði hann Genoa og Spezia auk þess sem hann starfaði sem þjálfari yngri liða Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×