Fótbolti

Stefán Teitur skoraði þegar Sil­ke­borg lagði AGF annað sinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefán Teitur heldur áfram að gera það gott. Hann yfirgefur Silkeborg eftir tímabilið.
Stefán Teitur heldur áfram að gera það gott. Hann yfirgefur Silkeborg eftir tímabilið. Silkeborg IF

Stefán Teitur Þórðarson skoraði sigurmark Silkeborg þegar liðið lagði AGF í dönsku efstu deild karla í knattspyrnu.

Var þetta annar 1-0 sigur Silkeborgar á AGF á stuttum tíma þar sem liðin mættust í bikarúrslitum fyrir ekki svo löngu síðan. Þar skoraði Stefán Teitur einnig en það mark var dæmt af á meðan mark dagsins stóð og tryggði Silkeborg sigur.

Stefán Teitur var í byrjunarliði gestanna í kvöld og Mikael Anderson var í byrjunarliði AGF. Líkt og í bikarúrslitunum var ekki mikið um opið marktækifæri og staðan markalaus í hálfleik.

Það var strax á annarri mínútu síðari hálfleiks sem hinn 25 ára gamli Stefán Teitur skoraði það sem reyndist sigurmarkið eftir undirbúning Callum McCowatt. Var þetta 11. mark Skagamannsins á tímabilinu.

Hann var svo tekinn af velli á 65. mínútu en Mikael lék allan leikinn í liði AGF sem tókst ekki að jafna metin og lauk leiknum með 1-0 sigri Silkeborg.

Silkeborg er sem stendur í 6. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 35 stig, þremur minna en AGF sem er sæti ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×