Enski boltinn

Ten Hag vísar gagn­rýni Rooneys til föður­húsanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Öll spjót beinast að Erik ten Hag þessi dægrin.
Öll spjót beinast að Erik ten Hag þessi dægrin. getty/Simon Stacpoole

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, kom leikmönnum sínum til varnar eftir að Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu félagsins, sagði að sumir þeirra neituðu að spila.

Rooney var sérfræðingur Sky Sports um leik United og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Þar sagði hann að nokkrir af leikmönnum United sem eru á meiðslalistanum gætu vel spilað en gerðu það ekki til að sleppa við gagnrýni.

Ten Hag var spurður út í ummæli Rooneys á blaðamannafundi í gær. Hann sagði gagnrýni hans ekki eiga við rök að styðjast.

„Þú sérð hér á æfingasvæðinu að leikmennina dauðlangar að spila. Bruno [Fernandes] fór í skoðun fyrir leikinn á sunnudaginn og [Marcus] Rashford gerði allt sem hann gat. Leikmenn eru staðráðnir í að spila. [Victor] Lindelöf og [Raphaël] Varane eru að æfa til að verða klárir fyrir bikarúrslitaleikinn,“ sagði Ten Hag en United mætir Manchester City í bikarúrslitum um þarnæstu helgi.

Auk leikmannanna sem Ten Hag nefndi voru Lisandro Martínez, Harry Maguire, Luke Shaw, Mason Mount, Tyrell Malacia og Anthony Martial fjarri góðu gamni gegn Arsenal vegna meiðsla. United tapaði leiknum, 0-1.

United tekur á móti Newcastle United í næstsíðasta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. United er í 8. sæti en Newcastle í því sjötta. Þremur stigum munar á liðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×