Enski boltinn

Sala drykkjarins í hæstu hæðum eftir myndirnar af Haaland

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erling Haaland elskar mjólk.
Erling Haaland elskar mjólk. Vísir/Getty

Það er vitað að þekktir einstaklingar hafa áhrif á sölutölur sjáist þeir nota eða neyta tiltekinnar vöru. Í Noregi er knattspyrnumaðurinn Erling Haaland eflaust ofarlega á lista yfir þá sem hafa hvað mest áhrif hvað þetta varðar.

Erling Haaland er einn af þekktustu íþróttamönnum Noregs ef ekki sá þekktasti. Knattspyrnumaðurinn hefur farið á kostum með Manchester City síðan hann gekk til liðs við félagið sumarið 2022. Þó svo að hann hafi látið minna fyrir sér fara síðustu vikur er hann markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 21 mark á þessu tímabili.

Í sambandi við velgengni Haalands síðustu misseri hafa matarvenjur hans verið til umfjöllunar. 

Hann drekkur til dæmis mikið af mjólk og fyrir ári síðan birti hann mynd á samfélagsmiðlum sínum þar sem hann hélt á tveimur stórum mjólkurflöskum. Á miðvikudag sást hann síðan á æfingu hjá Manchester City með mjólkurfernu í hendinni.

Myndin sem birtist fyrir ári síðan hefur heldur betur haft áhrif.

„Það er ekki beint neikvætt fyrir okkur að einhver ofurfrægur tali jákvætt um mjólk við ungt fólk,“ sagði Randi Skårland Doka sölu- og markaðsstjóri hjá Jeryseymejeriet í Noregi.

Hún segir að fyrir ári síðan hafi verið seldir 350 mjólkurlítrar á viku en nú sé salan komin upp í 1000 lítra. Heilt yfir hefur mjólkurdrykkja í Noregi minnkað síðustu 15 árin en áhrif Haaland gefur mjólkurbændum tilefni til að vera bjartsýnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×