Fótbolti

Lopetegui tekur við AC Milan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Julen Lopetegui er á leið til Mílanó.
Julen Lopetegui er á leið til Mílanó. David Ramos/Getty Images

Hinn 57 ára gamli Julen Lopetegui verður næsti þjálfari ítalska stórliðsins AC Milan. Liðið er sem stendur í 2. sæti Serie A, ítölsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, en erkifjendur þeirra og næstu nágrannar í Inter hafa nú þegar tryggt sér titilinn.

Lopetegui þjálfaði síðast Úlfana í ensku úrvalsdeildinni en sagði starfi sínu lausu fyrir yfirstandandi leiktíð. Hann var meðal þeirra sem orðaður var við starf West Ham United en hefur nú ákveðið að halda til Mílanó.

Fyrir skemmstu var staðfest að Stefano Pioli yrði látinn taka poka sinn þegar tímabilinu lýkur en hann hefur stýrt AC Milan frá 2019.

Lopetegui hefur þjálfað landslið Spánar, þar á meðal A-landsliðið. Þá hefur hann stýrt Porto í Portúgal, Sevilla og Real Madríd til gríðarlega skamms tíma ásamt því að stýra Úlfunum tímabilið 2022-2023.

Nú virðist öruggt að hann muni ekki snúa aftur til Englands heldur muni hann reyna fyrir sér á Ítalíu. Yrði hann aðeins einn þriggja þjálfara Serie A sem ekki eru með ítalskt vegabréf. Hinir tveir, Ivan Juric hjá Torínó og Igor Tudor hjá Lazio, spiluðu þó lengi vel á Ítalíu. 

Hvort það muni hafa áhrif á hversu langan tíma hann fær til að sýna hvað í sér býr á eftir að koma í ljós.


Tengdar fréttir

Milan ætlar að reka Pioli

Stjórastarfið hjá AC Milan losnar í sumar en félagið hefur ákveðið að reka Stefano Pioli eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×