Enski boltinn

„Ekki boð­legt á þessu getu­stigi“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ange Postecoglou á hliðarlínunni.
Ange Postecoglou á hliðarlínunni. EPA-EFE/ANDY RAIN

„Við gáfum þeim of auðvelt aðgengi að markinu okkar í fyrri hálfleik og það er ekki boðlegt á þessu getustigi,“ sagði Ange Postecoglou, þjálfari Tottenham Hotspur, eftir tap sinna manna gegn erkifjendunum í Arsenal þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu.

Arsenal vann 3-2 sigur á Tottenham fyrr í dag en Skytturnar voru 3-0 yfir í hálfleik. Í þeim síðari svaraði Tottenham með tveimur mörkum en það dugði ekki til.

„Við borguðum fyrir mistökin sem við gerðum. Við gátum ekki mætt út í síðari hálfleikinn án þess að gefa stuðningsfólki okkar örlitla von. Úrslitin engu að síður gríðarleg vonbrigði,“ bætti Ange við.

„Við sýndum ekki þá þrautseigju sem við getum, sérstaklega þegar þeir sneru vörn í sókn eða í föstum leikatriðum. Við gáfum þeim alltof auðvelt aðgengi að markinu okkar. Þeir eru gott lið og refsa ef þú gerir ekki allt sem mögulegt er til að verja mark þitt.“

„Það eru margir þættir leiksins sem valda okkur áhyggjum. Það er ekki eitthvað eitt sem við þurfum að laga, það er margt sem þarf að laga. Stundum þarf maður að finna sársaukann til að átta sig á að maður þarf að gera hlutina öðruvísi næst,“ sagði Ange að lokum.

Eftir leikinn er Arsenal á toppi deildarinnar með 80 stig að loknum 35 leikjum á meðan Tottenham er í 5. sæti með 60 stig að loknum 33 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×