Fótbolti

Sería A örugg með fimm Meistara­deildar­sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Pulisic fagnar marki með AC Milan en ítölsku félögin voru duglega að safna stigum í Evrópu á leiktíðinni.
Christian Pulisic fagnar marki með AC Milan en ítölsku félögin voru duglega að safna stigum í Evrópu á leiktíðinni. Getty/Giuseppe Cottini

Ítalir fögnuðu ekki aðeins því í gær að Atalanta, Roma og Fiorentina komust áfram í undanúrslit Evrópukeppnanna.

Góður árangur ítölsku félaganna hefur nú tryggt það að Sería A mun fá annað af bónussætunum í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Fimm lið frá Ítalíu verða því í nýrri Meistaradeild en að þessu sinni taka 36 lið þátt.

Ítölsku liðin eru með bestan árangur í Evrópukeppnunum á þessu tímabili og það skipti ekki máli að ekkert ítalskt félag komst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Gengi ítalskra félaga var það gott í Evrópu í vetur en lið fá stig fyrir sigra og jafntefli og samanlagður heildarfjöldi stiga hjá liðum í hverju landi ræður síðan röðun þeirra á styrkleikalista UEFA.

Sætið hjá Ítölunum var tryggt eftir að fjögur af fimm enskum liðum í átta liða úrslitum Evrópukeppnanna duttu úr leik.

Manchester City, Arsenal, Liverpool og West Ham sátu öll með sárt ennið og líklegast er núna að Þýskaland fái hitt aukasætið.

Bayern München og Borussia Dortmund komust bæði áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar og Bayer Leverkusen sló West Ham út í gær. Þýskaland þarf aðeins tvo sigra eða einn sigur og tvö jafntefli í viðbót í undanúrslitaleikjunum til að tryggja sér endanlega sætið.

Roma er eins og er í fimmta sætinu á Ítalíu en í sjötta sætinu er Atalanta. Þau eru bæði í undanúrslitum Evrópudeildarinnar og ef þau vinna hana þá hjálpa þau hinu liðinu inn í Meistaradeildina því Ítalía yrði þá með sex lið í henni á næstu leiktíð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×