Real sló meistarana úr leik eftir vítakeppni

Leikmenn Real fagna eftir að sigurinn var í höfn.
Leikmenn Real fagna eftir að sigurinn var í höfn. Vísir/Getty

Real Madrid er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar eftir sigur á ríkjandi meisturum Manchester City í vítakeppni.

Einvígið var galopið eftir stórkostlegan fyrri leik sem lauk með 3-3 jafntefli. Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi í upphafi en það var Real Madrid sem tók forystuna á 12. mínútu þegar Brasilíumaðurinn Rodrygo skoraði eftir að hafa fylgt eftir eigin skot í markteignum.

Manchester City þurfti mark og þeir settu fljótt allt púður í sóknarleikinn. Erling Haaland átti skalla í slá skömmu eftir mark Real og Lunin í marki gestanna þurfti nokkrum sinnum á grípa inn í.

Einstefna City

Staðan í hálfleik var 1-0 og í síðari hálfleiknum var nánast einstefna að marki Real. City var nánast stanslaust í sókn og það virtist draga fljótt af leikmönnum Real. Jöfnunarmarkið kom á 76. mínútu. Antonio Rudiger hreinsaði þá fyrirgjöf beint fyrir fætur Kevin De Bruyne sem kláraði frábærlega í þaknetið.

Pressa City hélt áfram og heimamenn fengu nokkrar góðar stöður til að tryggja sér sigur í venjulegum leiktíma en tókst ekki. Það þurfti því að grípa til framlengingar og þar hélt sama sagan áfram. City sótti og sótti en lið Real varðist frábærlega.

Undir lok fyrri hálfleiks framlengingar fékk áðurnefndur Rudiger gott færi til að skora en skaut framhjá frá markteigshorninu. Það var augljóst í seinni hluta framlengingar að leikmenn beggja liða voru orðnir dauðþreyttir. Lítið markvert gerðist og þegar flautað var til loka framlengingar var staðan 1-1 og því gripið til vítakeppni.

Hræðileg spyrna Silva vendipunktur

Í fyrstu umferðinni skoraði Argentínumaðurinn Julian Alvarez úr fyrstu spyrnu City en Ederson varði síðan frá Luka Modric. Bernardo Silva gat því komið City í góða stöðu í annarri umferðinni en Lunin í markinu varði hræðilega spyrnu Portúgalans.

Þetta var vendipunktur keppninnar. Jude Bellingham jafnaði metin fyrir Real og Lunin varði síðan á nýjan leik, í þetta skiptið frá Mateo Kovacic. Lucas Vasquez, Phil Foden, Nacho og Ederson skoruðu allir úr sínum spyrnum og þegar Antonio Rudiger gekk upp völlinn til að taka fimmtu spyrnu Real var ljóst að hann myndi tryggja þeim sigur með því að skora.

Það gerði hann af öryggi og leikmenn Real Madrid fögnuðu gríðarlega en heimamenn sátu eftir með sárt ennið. Real Madrid mætir Bayern Munchen í undanúrslitum en PSG og Dortmund mætast í hinu einvíginu.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira