Innlent

Sá sem mölvaði rúðurnar glímir við al­var­leg and­leg veikindi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlmaðurinn notaði brot úr þakrennu til að láta höggin dynja á rúðunni.
Karlmaðurinn notaði brot úr þakrennu til að láta höggin dynja á rúðunni.

Karlmaður sem gekk berserksgang við verslun Fiskikóngsins við Sogaveg upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi þarf að komast undir læknishendur og í viðeigandi úrræði. Lögregla hefur margoft haft afskipti af honum í gegnum tíðina.

Það var upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi sem lögregla var kölluð út. Karlmaður hafði þá mölbrotið þykkar rúður í verslun Fiskikóngsins á innan við mínútu. Fiskikónginum Kristjáni Berg Ásgeirsson er ekki skemmt vegna málsins.

„Við erum vel tryggð en verslun okkar á Sogavegi opnar ekki fyrr en kl 12:00 vegna þessara uppákomu,“ segir Kristján í færslu á Facebook.

Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi segir að maðurinn glími við andlega erfiðleika. Hann segir manninn sjálfsagt hafa verið að reyna að komast inn til að hlýja sér.

Maðurinn hafi verið nánast handtekinn á staðnum eftir tilkynningu um lætin. Hann gisti fangageymslur í nótt.

„Þetta er afskaplega veikur maður sem þarf að komast undir læknishendur,“ segir Guðmundur Pétur. Maðurinn hafi margoft komið við sögu lögreglu, hann sé góðkunningi hennar.

„Við höfum handtekið hann margoft. Hann er í afskaplega slæmu ástandi,“ segir Guðmundur Pétur og vonast til að lögregla komi manninum í viðeigandi úrræði í dag.

„Svo við þurfum ekki að handtaka hann næstu nótt líka.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×