Íslenski boltinn

Biðin eftir fyrsta leiknum á grasi lengist

Sindri Sverrisson skrifar
HK og ÍA spila bæði innanhúss í 3. umferð Bestu deildarinnar um helgina.
HK og ÍA spila bæði innanhúss í 3. umferð Bestu deildarinnar um helgina. vísir/Hulda Margrét

Nú hafa allir þrír leikirnir sem til stóð að yrðu spilaðir á grasi, í 3. umferð Bestu deildar karla í fótbolta, verið færðir á gervigrasvelli.

ÍA tekur á móti Fylki á sunnudaginn og nú hefur sú ákvörðun verið tekin að færa leikinn inn í Akraneshöllina. Sömuleiðis mæta Skagamenn liði Tindastóls í Akraneshöllinni, í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudaginn í næstu viku.

Þar með er áætlað að fyrsti leikurinn á ELKEM-vellinum á Akranesi verði 28. apríl þegar ÍA tekur á móti FH í Bestu deildinni í 4. umferðinni.

Áður höfðu FH og HK víxlað á heimaleikjum þannig að þau mætast í Kórnum á laugardaginn, í stað þess að mætast á Kaplakrikavelli. Áætlað er að fyrsti heimaleikur FH verði því 4. maí, eða ekki fyrr en í 5. umferð.

Leikirnir í 3. umferð

  • Föstudagur 19. apríl:
  • 19.15 Stjarnan - Valur, Samsungvellinum í Garðabæ
  • Laugardagur 20. apríl:
  • 14.00 HK - FH, Kórinn í Kópavogi
  • 16.15 KR - Fram, AVIS-vellinum í Laugardal
  • Sunnudagur 21. apríl:
  • 14.00 KA - Vestri, Greifavellinum á Akureyri
  • 17.00 ÍA - Fylkir, Akraneshöllin
  • 19.15 Víkingur - Breiðablik, Víkingsvöllur

Loks á KR heimaleik við Fram sem færi fram á Meistaravöllum ef veðurguðirnir hefðu verið fótboltafólki hliðhollari, en liðin mætast á AVIS-velli Þróttara í Laugardalnum á laugardaginn.

Á þeim velli verður einnig fyrst „heimaleikur“ Vestra í efstu deild þegar liðið mætir HK í 4. umferð 28. apríl, en áætlað er að fyrsti leikurinn á nýjum heimavelli á Ísafirði verði ekki fyrr en í 7. umferð, þegar Víkingar koma í heimsókn.

Samkvæmt plani er núna fyrsti leikurinn á grasvelli á milli KR og Breiðabliks 28. apríl, en það gæti vel átt eftir að breytast og biðin eftir fyrsta grasleiknum lengst fram í maí.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×