Fótbolti

Le­verku­sen Þýska­land­smeistari í fyrsta sinn eftir stór­sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fagnaðarlætin voru skiljanlega gríðarleg.
Fagnaðarlætin voru skiljanlega gríðarleg. Andreas Rentz/Getty Images

Það var ekki að sjá að taugarnar hafi náð til Bayer Leverkusen en liðið vann 5-0 stórsigur í dag og tryggði sér um leið sinn fyrsta Þýskalandsmeistaratitil í knattspyrnu.

Lærisveinar Xabi Alonso hafa verið óstöðvandi á leiktíðinni og segja má að Werder Bremen hafi verið sem lömb leidd til slátrunar.

Aðeins eitt mark var skorað í fyrri hálfleik en það gerði Victor Boniface úr vítaspyrnu á 25. mínútu. Eftir klukkustund tvöfaldaði Granit Xhaka forystu Leverkusen, Boniface með stoðsendinguna að þessu sinni.

Eftir það var komið að Florian Wirtz. Hann skoraði sitt fyrsta mark og þriðja mark Leverkusen á 68. mínútu. Á 83. mínútu bætti hann við öðru marki sínu og 4. marki heimamanna. Það var svo á lokamínútu venjulegs leiktíma sem hann fullkomnaði þrennu sína.

Lokatölur 5-0 og Leverkusen þýskur meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins. Er þetta í fyrsta sinn síðan 2012 sem annað lið en Bayern München verður meistari í Þýskalandi.

Leverkusen er með 79 stig að loknum 29 leikjum en liðið hefur ekki enn tapað leik í deildinni. Bæjarar koma þar á eftir með 63 stig líkt og Stuttgart. RB Leipzig og Borussia Dortmund eru svo með 56 stig og í harðri baráttu um síðasta Meistaradeildarsætið.

Xabi Alonso hefur náð ótrúlegum árangri sem þjálfari Leverkusen en hann tók við liðinu á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir að vera gríðarlega eftirsóttur hefur hann ákveðið að taka annað tímabil með félaginu.

Virðist ætla að verða jafn sigursæll sem þjálfari og hann var sem leikmaður.EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORF



Fleiri fréttir

Sjá meira


×