Fótbolti

Börn Kane sluppu vel

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Kane með dætrum sínum Ivy og Vivienne sem lentu í árekstrinum á mánudaginn.
Harry Kane með dætrum sínum Ivy og Vivienne sem lentu í árekstrinum á mánudaginn. Getty/Eddie Keogh

Harry Kane, framherji Bayern München, var nýlentur í London á mánudag, vegna leiksins við Arsenal, þegar hann fékk þær fréttir að þrjú elstu börn hans hefðu lent í árekstri í Þýskalandi.

Börnin þrjú, sem eru á aldrinum 3-7 ára, voru flutt á sjúkrahús með minni háttar meiðsli en um var að ræða þriggja bíla árekstur. Slökkviliðsstjóri á svæðinu sagði BBC að það væri „mikil heppni“ að enginn skyldi slasast alvarlega.

Börnin voru farþegar í Mercedes-bifreið sem 24 ára kona ók, sem lenti í árekstri við Renault-bifreið á gatnamótum, í Schäftlarn í nágrenni München-borgar. Renaultinn klessti einnig á Land Rover-bifreið.

Talsmaður Kane staðfesti við BBC að börnin hefðu sloppið vel: „Það er í lagi með þau öll og þau fóru bara á sjúkrahús í hefðbundna skoðun.“

„Stórsá á bílunum“ en fólkið slapp vel

Kane hélt því kyrru fyrir í London og spilaði á þriðjudaginn gegn Arsenal þar sem hann skoraði í 2-2 jafntefli. Bayern tekur svo á móti Arsenal í seinni leik liðanna í München á þriðjudaginn.

Slökkviliðsstjóri segir ljóst að betur hafi farið en á horfðist í árekstrinum.

„Það stórsá á öllum bílunum. Það fyrsta sem við sáum var fjöldi fólks úr bílunum sem hafði slasast. Góðu fréttirnar eru þær að enginn meiddist alvarlega, þetta voru minni háttar meiðsli eins og til að mynda verkur í hálsi og upp úr, eins og oft gerist í árekstrum,“ sagði slökkviliðsstjórinn Daniel Buck við BBC.

Kane á fjögur börn með eiginkonu sinni Kate. Ivy er sjö ára, Vivienne fimm ára, Louis þriggja ára og loks Henry sem fæddist í ágúst síðastliðnum. Sá yngsti var ekki með í bílnum.

Kane var seldur til Bayern frá Tottenham í fyrrasumar fyrir 86,4 milljónir punda. Fjölskylda hans varð eftir í Lundúnum en mun hafa flutt til Þýskalands fyrr á þessu ári, í hverfi sem kallað er „Beverly Hills Bæjaralands“.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×