Fótbolti

Vildi ekki dæma víti á „barna­leg mis­tök“ Arsenal

Sindri Sverrisson skrifar
Gabriel tók boltann upp með höndum innan teigs en engin vítaspyrna var dæmd.
Gabriel tók boltann upp með höndum innan teigs en engin vítaspyrna var dæmd. Getty/Sven Hoppe

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Bayern, var afar reiður yfir útskýringum dómarans á því af hverju ekki skyldi dæmd vítaspyrna á Arsenal vegna furðulegs atviks í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Liðin gerðu 2-2 jafntefli í Lundúnum í gær og voru Arsenal-menn hundfúlir yfir að fá ekki vítaspyrnu í blálokin þegar þeir töldu brotið á Bukayo Saka.

Bæjarar töldu sig hins vegar einnig eiga að fá víti, um miðjan seinni hálfleik, þegar Gabriel varnarmaður Arsenal tók boltann upp með höndum. Varnarmaðurinn virtist telja að leikurinn væri ekki kominn í gang, eftir markspyrnu David Raya.

„Ég held að dómarinn hafi ekki haft hugrekkið til að dæma verðskuldaða vítaspyrnu í dag, í svolítið klikkuðu og vandræðalegu atviki,“ sagði Tuchel.

„Dómarinn viðurkenndi á vellinum að hann hefði séð atvikið og sagði að í 8-liða úrslitum þá væri þetta ekki nóg til að dæma víti, fyrir barnaleg mistök. Hann viðurkenndi að hafa séð mistökin sem leikmaðurinn gerði,“ sagði Tuchel og leyndi ekki vonbrigðum sínum.

„Þetta var markspyrna, markvörðurinn sendi á varnarmanninn sem snerti boltann með hendi því hann hélt að leikurinn væri ekki kominn í gang. En leikurinn var í gangi og dómarinn viðurkenndi það og að þetta væri hendi. Mjög ergilegt.“

Liðin mætast að nýju í Þýskalandi eftir viku og sigurliðið í þeim leik kemst áfram í undanúrslit keppninnar.


Tengdar fréttir

Arteta: Þú gerir mis­tök og þér er refsað

Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, segir sína menn geta sinnt litlu hlutunum betur eftir 2-2 jafntefli við Bayern München í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Stál í stál í Lundúnum

Arsenal og Bayern München gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeild Evrópu. Það er því allt undir í síðari leik liðanna sem fram fer í Þýskalandi þann 17. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×