Fótbolti

Heims­meistararnir með fullt hús eftir tvær um­ferðir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gamla brýnið Jenni Hermoso er enn í fullu fjöri.
Gamla brýnið Jenni Hermoso er enn í fullu fjöri. Juan Manuel Serrano Arce/Getty Images

Heimsmeistarar Spánar eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir undankeppni EM kvenna í knattspyrnu. Þá er England í góðum málum eftir fínan sigur á Írlandi.

Spánn hóf undankeppnina fyrir EM 2025 sem fram fer í Sviss á gríðarlega sannfærandi 7-0 sigri á Belgíu. Sigur kvöldsins var ekki jafn stór en liðið lagði Tékkland eftir að lenda óvænt undir í síðari hálfleik.

Staðan í leik kvöldsins var markalaus í hálfleik. Það voru svo gestirnir sem komust yfir þökk sé marki Eliska Sonntagova á 56. mínútu. Það létu heimsmeistararnir ekki bjóða sér en tveimur mínútum síðar jafnaði María Méndez metin eftir undirbúning Alexis Putellas.

Nokkrum mínútum síðar var Spánn komið yfir. Jenni Hermoso með markið eftir sendingu frá Mariona Caldentey. Hermoso þakkaði svo greiðan þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Caldentey skoraði þá þriðja mark Spánar eftir sendingu Hermoso.

Lokatölur 3-1 og Spánn með sex stig á toppi riðils 2 í A-deild. Danmörk er einnig með sex stig á meðan Tékkland og Belgía eru án stiga.

Í riðli 3 komst England á sigurbraut eftir að gera 1-1 jafntefli við Svíþjóð í fyrstu umferð undankeppninnar. Liðið gekk frá Írlandi í fyrri hálfleik þökk sé mörkum frá Lauren James og Alex Greenwood. Það síðara kom úr vítaspyrnu og fékk Greenwood tækifæri til að bæta þriðja markinu við en vítaspyrna hennar fór þá forgörðum.

Lokatölur 2-0 Englandi í vil sem er í 2. sæti með fjögur stig á meðan Frakkland er með fullt hús stiga eftir 1-0 útisigur á Svíþjóð í kvöld.

Önnur úrslit

  • Danmörk 4-2 Belgía
  • Finnland 2-1 Ítalía
  • Holland 1-0 Noregur

Tengdar fréttir

Austur­rískur sigur ýtti Ís­landi niður í þriðja sæti

Austurríki lagði Pólland 3-1 í undankeppni EM 2025 kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Sviss. Liðin eru í riðli 4 í A-deild ásamt Íslandi og Þýskalandi. Sigur Austurríkis ýtir Íslandi niður í 3. sætið en íslensku stelpurnar töpuðu 3-1 í Þýskalandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×