Fótbolti

Vel með­vitaðar um ógnina sem felst í Svein­dísi Jane

Aron Guðmundsson skrifar
Sveindís Jane fagnar marki sínu gegn Póllandi í 3-0 sigri Íslands á dögunum
Sveindís Jane fagnar marki sínu gegn Póllandi í 3-0 sigri Íslands á dögunum vísir / hulda margrét

Þýska pressan sem og leik­menn þýska lands­liðsins eru vel með­vitaðir um getu Svein­dísar Jane Jóns­dóttur innan vallar fyrir leik Þýska­lands og Ís­lands í undan­keppni EM 2025 í Aachen á morgun. Liðs­fé­lagar Svein­dísar Jane hjá Wolfs­burg, hrósa henni há­stert í að­draganda leiksins en eru um leið vel með­vitaðir um styrk­leika hennar og reyna að gera liðs­fé­lögum sínum ljóst hvað sé í vændum.

Aron Guð­munds­son skrifar frá Aachen

Leikur Þýska­lands og Ís­lands á morgun er viður­eign topp­liða fjórða riðils í A-deild undan­keppninnar. Bæði lið fóru með sigur úr býtum í viður­eignum sínum í fyrstu um­ferð, Ís­land vann öruggan 3-0 sigur á Pól­landi heima á Kópa­vogs­velli á meðan að þær þýsku lentu í basil með ná­granna sína frá Austur­ríki en höfðu að lokum 3-2 sigur eftir að hafa lent tveimur mörkum undir snemma leiks.

Í ís­lenska lands­liðinu er að finna góðan hóp leik­manna sem að spila í þýsku úr­vals­deildinni. Meðal þeirra leik­manna er Svein­dís Jane sem hefur getið sér gott orð með liði Wolfs­burg. Þjóð­verjarnir hafa ekki bara á­hyggjur af mara­skorun og sköpunar­gáfu Svein­dísar Jane. Þeir eru einnig vel með­vitaðir um ógnina sem skapast út frá löngu inn­köstum hennar.

„Hún er hreint út sagt frá­bær leik­maður,“ segir Vivien Endemann, liðs­fé­lagi Svein­dísar hjá Wolfs­burg og leik­maður þýska lands­liðsins. „Hún býr yfir gríðar­lega miklum hraða og löngu inn­köstin hennar eru raun­veru­legt vopn.“

Kat­hrin Hendrich, leik­maður Þýska­lands sem einnig spilar með Svein­dísi hjá Wolfs­burg, telur sig svo hafa lausnina við því að stoppa Svein­dísi.

„Maður verður að trufla hana í­trekað um leið og hún fær boltann. Ef hún kemst á skrið þá verður erfitt að stoppa hana.“

Búist er við um og yfir fimm­tán þúsund manns á leik Þýska­lands og Ís­lands á morgun á Tivoli leik­vanginum í Aachen. Þýska liðið mætir til leiks með tölu­verða pressu á sér efir nauman sigur gegn ná­grönnum sínum frá Austur­ríki í fyrstu um­ferð undan­keppninnar.

Þá dregur það ekki úr pressunni fyrir leik­menn liðsins að verðandi þjálfari þess, Christian Wück sem mun taka við þýska lands­liðinu, eftir Ólympíu­leikana í sumar, af bráða­birgða­þjálfaranum Horst Hrubesch, verður á meðal á­horf­enda á Tivoli leik­vanginum.

Verður það í fyrsta sinn sem hann mætir á leik hjá liðinu eftir að greint frá því að hann yrði næsti lands­liðs­þjálfari Þýska­lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×