Fótbolti

Hetjan Logi: „Stóru leikirnir eru fyrir mig“

Sindri Sverrisson skrifar
Logi Tómasson og félagar voru ánægðir eftir sigurmark hans í gær.
Logi Tómasson og félagar voru ánægðir eftir sigurmark hans í gær. Mynd/godset.no

Logi Tómasson var svo sannarlega hetja Strömsgodset í gær þegar liðið vann stórveldið Rosenborg, 1-0, í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Logi skoraði glæsilegt sigurmark.

Logi er að hefja sitt fyrsta heila tímabil sem atvinnumaður erlendis, eftir að hafa farið til Strömsgodset frá meistaraliði Víkings á miðju tímabili í fyrra.

Liðið fékk skell í fyrstu umferð norsku deildarinnar í ár, 4-0 á útivelli gegn Molde, og sigurinn í gær var því enn dýrmætari. Sigurmarkið glæsilega úr smiðju Loga má sjá hér að neðan.

Logi, sem er 23 ára, skoraði nokkur glæsimörk fyrir Víkinga og markið í gær var annað mark hans í norsku úrvalsdeildinni.

„Mér finnst gaman að skora á móti stóru liðunum,“ sagði Logi í gær en fjögur af níu mörkum hans í efstu deild hér á landi komu til að mynda gegn Val.

„Stóru leikirnir eru fyrir mig,“ bætti Logi við en hann skoraði einmitt einnig gegn Rosenborg á síðustu leiktíð.

Jörgen Isnes, þjálfari Strömsgodset, var vitaskuld ánægður með sigurmark Loga en sagði: „Þetta var stórkostlega flott mark. Logi er með fullt af mörkum í sér. Þetta var ekki hans besti leikur en markið var gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×